Kaldvík er nýtt nafn á austfirska fiskeldinu

Sameinað félag Ice Fish Farm/Fiskeldis Austfjarða, Laxa Fiskeldis og Búlandstinds fékk í morgun nýtt nafn, Kaldvík. Félagið verður síðar í dag skráð í íslensku kauphöllina.

Nýtt nafn og merki voru kynnt á fjárfestadegi sem haldinn er á Eskifirði í dag. Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri, sagði að eftir samruna félaganna árið 2022 hefði verið ólík menning innan þeirra. Fyrir ári hefði farið af stað vinna við að móta sameiginlega stefnu með þátttöku alls starfsfólks.

Hann sagði fyrirtækið, sem skráð er til heimilis á Eskifirði, búa að sterkri hefð í sjávarútvegi. Austfirðingar hefðu í gegnum aldirnar nýtt firðina og landið á sjálfbæran hátt en líka fært fórnir. Þannig hefðu tveir langafar hans aldrei snúið heim af sjónum.

Framúrskarandi umhverfi fyrir eldið


Jens sagði umhverfið framúrskarandi fyrir laxeldið. Hér væru fjöll með snævi þöktum tindum og kaldir firðir þar sem vetur ríkti nánast níu mánuði ársins. Það skapaði kjöraðstæður fyrir eldið sem skilaði sér bæði í úrvals laxi en eins hefði þar aldrei sést til laxalúsar, óværu sem getur valdið miklum skaða í eldi. Jens sagði laxeldið nýja efnahagsstoð, fyrir bæði Austurland og Ísland.

Kaldvík er hið eina með fiskeldi á Austfjörðum. Það er með rekstur á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Berufirði auk þess að eiga leyfi í Stöðvarfirði og með umsóknir um eldi á Seyðisfirði og Mjóafirði. Þá rekur það seiðaeldisstöðvar í Þorlákshöfn og við Kópasker auk laxasláturhúss á Djúpavogi.

Áætlað er að slátra rúmlega 20.000 tonnum í ár, en félagið er að ná sér af áfalli sem það varð fyrir vorið 2022 þegar ISA-veira greindist í eldinu og slátra varð fiski fyrr en áætlað var. Nýjar kynslóðir eru bólusettar gegn veirunni. Þannig var í fyrra slátrað innan við 5.000 tonnum. Innan tíðar er þess vænst að hægt verði að framleiða allt að 30.000 tonn.

Vilja ekki að fiskurinn sleppi


Félagið var stofnað árið 2012 og hefur því vaxið hratt á stuttum tíma. Um leið hefur gagnrýni á fiskeldi farið vaxandi, samhliða auknum áhyggjum af áhrifum þess á nánasta umhverfi en einkum villtan lax.

Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins, benti á að enn hefðu laxar ekki sloppið úr eldi þess og það ætlaði sér að tryggja að svo yrði áfram. Hann rakti notkun tækni, meðal annars myndavéla með gervigreind og sterkari neta en gengur og gerist, til þess.

Jens Garðar sagði stjórnendur Kaldvíkur alltaf tilbúna í sanngjarnt samtal um laxeldi og framtíð þess en það yrði að vera byggt á staðreyndum, vísindum og almennri skynsemi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.