Skip to main content

Kaldvík sektuð um hálfa milljón fyrir að sinna ekki sjúkum fiskum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. maí 2025 15:26Uppfært 26. maí 2025 15:31

Matvælastofnun hefur sektað fiskeldisfyrirtækið Kaldvík um hálfa milljón króna vegna brota á lögum um dýravelferð. Stofnunin taldi Kaldvík ekki hafa gert það sem hægt var til að fjarlægja veika fiska úr eldiskvíum í Berufirði en þar urðu mikil afföll í óvenju köldum sjó. Kaldvík hefur bætt verklag sitt en MAST hafnaði öllum upphaflegum andmælum við eftirlitsskýrsluna.


Eftirlitsmenn MAST fóru í eftirlit á eldissvæðið í Svarthamarsvík þann 20. febrúar í kjölfar upplýsinga um mikil afföll í janúar, sem komu fram á framleiðsluskýrslu sem skilað var inn nokkrum dögum fyrr. Eftirlitinu var sinnt af sérgreinalækni fiskisjúkdóma og deildarstjóra fiskeldisdeildar.

Í skýrslu úr eftirlitsferðinni eru gerðar athugasemdir við alvarlegt frávik, sem er að illa særðir fiskar séu ekki fjarlægðir. Ljóst sé að misbrestur hafi verið á því í janúar og febrúar.

Þúsundir sveimara í hverri kví


Nánar segir að mikið hafi verið af sveimurum og særðum fiskum í öllum kvíum. Sveimarar eru mikið lasnir eða þróttlitlir fiskar sem sveima um í kvíunum. Áætlað er að í hverri kví hafi verið 1.000-3.000 illa farnir sveimarar.

Eftirlitsmennirnir gera athugasemd við að engin alvöru tilraun hafi verið gerð til að fjarlægja sveimarana meðan eftirlitið var á staðnum. Þess er krafist að Kaldvík tryggi nægan mannskap til að bregðast við veikindunum. Athugasemd er gerð við að Kaldvík noti ekki svokallað „sweep net“ til að slæða upp veiku fiskana.

Eftir þessa ferð voru einnig gerðar athugasemdir við smitvarnir á svæðinu, að búnaður væri ekki þrifinn milli kvía og aðskilnaður milli hreinna og óhreinna svæða í starfsmannaaðstöðu sé ekki nógu skýr.

Töldu fjöldann ofmetinn


Í andmælum Kaldvíkur við skýrsluna er því haldið fram að starfsmenn hafi talið mestu skipta að sýna eftirlitsaðilum þau atriði sem átti að skoða, frekar en sinna hefðbundinni starfsemi meðan heimsókninni stóð. Annars hefði dagskránni verið háttað öðruvísi og heimsóknin staðið lengur.

Kaldvík segir einnig að í reglugerð um fiskeldi sé talað um að fjarlægja sýktan fisk eins fljótt og hægt er og þegar því verði komið við. Eftirlitið hafi heldur ekki gert kröfur á staðnum um að sveimararnir yrðu fjarlægðir.

Þá er því haldið fram af hálfu Kaldvíkur að eftirlitsaðilarnir hafi engar forsendur til að meta fjölda sýktu fiskanna. Þeir lúri við yfirborðið og því séu líkur á að fjöldinn sé ofáætlaður í sjónrænu eftirliti.

Kaldvík svarar einnig kröfunum um netið á þann hátt að fara þurfi varlega í notkun þess. Í kvíunum sé 70% fisk í góðu ástandi og netið geti sært heilbrigðan fisk eða skapað stress. Óvarleg notkun geti því gert illt verra.

Óvenju kaldur sjór


Í svörum fyrirtækisins segir að aðstæður hafi verið krefjandi í byrjun ársins. Það vísar í skýrslu frá VetaQ, dýralæknaþjónustu fyrir fiskeldi sem skrifuð er sama daga og eftirlit MAST fór fram. Þar segir að töluvert sé af dauðum fiski í yfirborðinu en erfiðara sé að meta stöðuna undir yfirborðinu. Niðurstaða dýralæknisins er þó sú að í öllum kvíum sé mikil afföll og margir sveimarar. Þá höfðu frá áramótum 28 þúsund fiskar verið fjarlægðir úr kvíunum í Svarthamarsvík.

Ástæðan er rakin til kalds sjávar sem hafi valdið svokölluðum vetrarsárum sem fyrst greindust í kvíunum í október 2024. Sýkingar koma síðan í sárin. Dýralæknirinn skrifar að sjórinn hafi verið einstaklega kaldur, mun kaldari heldur en fyrri vetur þannig erfitt hafi verið að sjá ástandið fyrir. Af minnisblaðinu má ráða að vandamálið hafi ekki verið bundið við Svarthamarsvík heldur einnig verið á Glímeyri.

Dýralæknirinn segir starfsfólk fiskeldisins hafa gert sitt besta til að fjarlægja fiskinn en veðrið sett strik í reikninginn. Dýralæknirinn mælir þar með notkun sópunarnetanna til að hreinsa yfirborðið í kvíunum en þreytandi sé að nota handháfa.

Kaldvík vildi að allar athugasemdirnar yrðu afturkallaðar


Kaldvík segist hafa nægan mannskap til að bregðast við vandamálinu og tveir bátar hafi verið sendir á svæðið. Hins vegar hafi ekki verið hægt að fá þann þriðja vegna veðurs en sé hefði komið með annað búnað. Fyrirtækið telur því óljóst hvað sé nægur búnaður eða mannskapur.

Varðandi sótthreinsun búnaðar milli kvía segir Kaldvík að þess sé ekki krafist í reglum, né hafi áður verið gerðar athugasemdir við slíkt í starfseminni. Ávinningur af því sé takmarkaður. Ennfremur vísar Kaldvík til minnisblaðs VetaQ um að hreinlæti í Svarthamarsvík sé gott og starfsfólkið samviskusamt.

Kaldvík fór þess vegna fram á að allar athugasemdirnar yrðu fjarlægðar úr skýrslu MAST, eða breytt, eins og að talað yrði um frávik en ekki alvarlegt frávik. Almennt gerir Kaldvík athugasemdir við að þarna séu gerðar athugasemdir við vinnulag sem MAST hafi áður ekki gert athugasemdir við. Þá er kvartað yfir að eftirlitsfólkið hafi ekki rætt málin á staðnum því þannig hefði mátt útskýra hlutina betur. Að lokum gerir Kaldvík athugasemdir við að hafa aðeins tvo daga til að svara skýrslunni, en hafa í millitíðinni fengið annað erindi með hótunum um dagsektir.

MAST taldi að Kaldvík hefði átt að kalla út auka mannskap eða vinna yfirvinnu


Þessum athugasemdum Kaldvíkur svaraði MAST þann 7. mars. Þar segir að þótt eftirlit eigi að fara fram án boðunar hafi MAST látið vita af komu sinni daginn áður enda þurft á Kaldvík að halda til að komast út í kvíarnar. Það segir einnig að eftirlitið hafi afmarkast af hefðbundnum ferðum þjónustubáta, ekki því að eftirlitsmennirnir vildu komast sem fyrst aftur í land.

Vísað er til þess að gögn af MarineTraffic hafi sýnt að dagana á undan hafi þjónustubátar farið að kvíunum klukkan níu að morgni og komið aftur klukkan 13 „þrátt fyrir að ástand á svæðinu væri mjög alvarlegt og gríðarlegur fjöldi af særðum fiskum í kvíunum.“

Stofnunin ítrekar að ástandið í Svarthamarsvík hafi varað dögum saman þegar farið var í úttektina. Það sjáist meðal annars á stórum og miklum sárum á fiskunum. Þá hafi einhverjar þeirra verið orðnir blindir. Matvælastofnun telur það skyldu Kaldvíkur að fjarlægja veika fiska eins fljótt og kostur er. Til þess þurfi annað hvort að kalla til auka mannskap eða lengja vinnutíma. Ljóst sé að ástandið hafi ekki myndast á einum degi og Kaldvík haft tækifæri í góðu veðri dagana á undan til aðgerða. Varðandi fjöldann telur Matvælastofnun að farið hafi verið varlega í að áætla hann.

Þá telur MAST að rétt hafi verið að grípa til vélstýrðu sópunarnetanna, enda sé það næsta skref þegar handháfun hafi ekki undna. Áhættan af notkun þeirra vegi minna heldur en hagsmunir særðu fiskanna og þeirra sem lifa að þeim sé forðað frá smiti. Stofnunin vísar einnig í skýrslu frá VetaQ mánuði fyrr um að að nota verði sóparana þar sem ástandið sé orðið verst.

Brugðist við eftir athugasemdirnar


Hvað viðkemur förgunartölunum telur MAST að þær séu of lágar miðað við umfang vandans og vísar þar í skýrslur frá VetaQ frá desember fram í febrúar. Stofnunin kveðst ekki efast um framlag starfsfólks en minnir Kaldvík á ábyrgð sína um að sinna nauðsynlegum verkefnum. Hins vegar séu vísbendingar um að ekki hafi verið gert það sem hægt var, samanborið við að einn bátur félagsins hafi verið við bryggju. Minnt er á skyldu Kaldvíkur um að gera allt sem hægt er til að gæta velferðar eldislaxins.

Lokaorð svarbréfs Matvælastofnunar eru þau að andmælin séu ekki tekin til greina við nokkurn liðanna sem Kaldvík mótmælti.

Nýjasta eftirlitsskýrslan, sem aðgengileg er á vef MAST, er frá 11. mars. Hún er úr ferð sem farin var til að fylgja eftir þeim athugasemdum sem áður voru gerðar. Sú skýrsla er án athugasemda. Þar segir að úrbætur hafi verið gerðar um leið og eftirlitsskýrslan barst þannig árangurinn sé viðunandi. Búið sé að kaupa sópara og vöa-hring fyrir hvert framleiðslusvæði og verklag fyrir fjarlægingu sveimara hafi verið uppfært.