Skip to main content

Kalla eftir hækkun á framlagi Uppbyggingarsjóðs í nýrri Sóknaráætlun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2023 10:17Uppfært 06. des 2023 10:20

Tæpum 65 milljónum var í gær úthlutað til 67 verkefna úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. Þetta er í síðasta sinn sem veitt er úr sjóðnum með núverandi fyrirkomulagi þar sem gildandi Sóknaráætlun Austurlands rennur út á næsta ári. Sveitarstjórnarfólk af svæðinu segir nauðsynlegt að bæta í sjóðinn því arðsemi hans hafi löngu sannað sig.


Samningar um núgilandi Sóknaráætlun voru undirritaðir í nóvember 2019 og tók hún gildi árið eftir en fyrsta. Í henni er Uppbyggingarsjóðurinn skilgreindur, hvernig skuli úthluta úr honum, hve miklir fjármunir renni í hann og hvaða áherslur séu í fyrirrúmi. Fyrsta sóknaráætluninni og þar með ramminn að núverandi fyrirkomulagi tók gildi árið 2015.

„Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt fjöldann allan af menningar- og atvinnuverkefnum, bæði stórum og smáum, í gegnum tíðina, sem auðgað hafa mannlífið og skapað fólki atvinnu. Minni verkefni hafa fengið byr undir báða vængi til að komast á loft og stærri aðstoð við að halda flugi.

Öllum ætti að vera ljóst að sjóðurinn er ein af stoðum samfélagsins hér fyrir austan, því verður það sem við tekur að vera upp og áfram,“ sagði Unnar Geir Unnarsson, formaður úthlutunarnefndar í gær.

Fleiri ráðuneyti komi að


Það eru ráðuneyti byggðmála og menningarmála sem tryggt hafa fjármagn í sjóðinn með staðfestingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi kallaði eftir því í gær að fleiri ráðuneyti komi að sóknaráætlunum.

„Það er ánægjulegt og gefandi að sjá þann fjölbreytileika sem er hér á Austurlandi, bæði í nýsköpun í almennri atvinnuþróun, listum og menningu. Uppbyggingarsjóðurinn er okkur Austfirðingum einkar mikilvægur og ýtir undir grósku og nýsköpun landshlutanum öllum til heilla.

Sóknaráætlun er mjög mikilvæg fyrir Austurland sem og aðra landshluta og brýnt að halda áfram á svipaðri braut og verið hefur. Mikilvægt er að fleiri ráðuneyti taki þátt í nýrri Sóknaráætlun landshluta með beinu fjármagni og möguleikar á auknu fjármagni skoðaðir til eflingar atvinnulífs úti á landi, sérstaklega í þeim landshlutum sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum meðbyr til áframhaldandi vinnu við eflingu landsbyggðarinnar með fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi,“ sagði hún.

Landshlutarnir fái að ráðstafa fjármunum sjálfir


Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sagði að hollt væri að endurskoða fyrirkomulag sjóðsins til að halda áfram að tryggja jafnræði þeirra sem sæki um. Mikilvægt sé þó að tryggja að landshlutarnir fái áfram úthlutað fjármagni og þeir fái sjálfir mestu ráðið um hvernig því sé útdeilt. Hún bætti við að það væri hlutverk sveitarstjórnarfólks að þrýsta á um aukið fjármagn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fagnaði í sínu ávarpi árangri af sjóðnum. „Frá upphafi sóknaráætlunar 2015 hafa styrkir úr sjóðnum veitt mörgum áhugaverðum verkefnum byr undir báða vængi og hafa þau vakið eftirtekt langt út fyrir landshlutann. Fjölbreytni, metnaður og gæði skína í gegn þegar langur listi styrkþega í gegnum árin er rýndur.“