Skip to main content

Kalla Vegagerðina á fund vegna óviðunandi ástands malarvega í Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. sep 2025 13:57Uppfært 18. sep 2025 09:05

Enn þann dag í dag eru yfir hundrað kílómetrar af malarvegum í sveitum Múlaþings en lítið og ófullnægjandi viðhald um áraraðir er fyrir löngu orðið óboðlegt að mati heimastjórnar Fljótsdalshéraðs. Ekki hvað síst þegar kemur að börnunum og skólaakstri.

Malarvegir eða malarkaflar finnast enn á Efri-Jökuldal, í Hnefilsdal, Skriðdal, Hlíð og Hróarstungu og að litlum hluta til í Hjaltastaðaþinghá auk Axarvegar en öll heyra þessi svæði til Múlaþings.

Viðhald á þessum vegum er slitrótt mjög en oftar en ekki er raunin sú að Vegagerðin fyllir í þá og sléttir einu sinni árlega en láti annars gott heita. Það fyrirkomulag hefur undanfarin ár gjarnan haft í för með sér, að hluta til vegna veðurfars, að aðeins líða fáeinar vikur áður en vegirnir eru aftur orðnir mjög grófir, holóttir og þvottabrettin fleiri en tölu verður á komið.

Grunnskólafulltrúi Múlaþings, Stefanía Malen Stefánsdóttir, sem býr í Hlíð kom á fund heimastjórnar Fljótsdalshéraðs fyrir skemmstu og lýsti ástandinu fyrir fulltrúum heimastjórnarinnar. Ástand veganna sé með því allra versta og sé algjörlega óviðunandi og óboðlegt börnum og öðrum íbúum sem þurfa að nota þessa vegi nánast hvern einasta dag.

Samþykkti heimastjórnin að kalla umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Austurlandi á næsta fund sinn til að ræða þetta mál en sá fundur er fyrirhugaður þann 9. október næstkomandi.