Skip to main content

Kallar eftir sérstökum Loftbrúarfargjöldum fyrir íþróttafélög

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. maí 2025 15:02Uppfært 12. maí 2025 15:45

Dyggur stuðningsmaður blakdeildar Þróttar í Neskaupstað segir brýna þörf fyrir að ríkið fari að bjóða sérstök Loftbrúarfargjöld fyrir íþróttafélögin austanlands. Kostnaður félaganna við flug og ferðalög sé beinlínis orðin galinn.

Ákall Sigríðar Þrúðar Þórarinsdóttur um að ríkið stígi inn í til að tryggja flugferðir á viðráðanlegu verði fyrir íþróttafélög á landsbyggðinni sem Sigríður birti fyrir helgi á vefnum Dýrt innanlandsflug - þín upplifun hefur vakið verulega athygli.

Þar lýsir Sigríður því að eingöngu flugkostnaður 34 manna hóps úr yngri flokkum blakdeildar Þróttar í Neskaupstað fram og til baka milli Egilsstaða og Reykjavíkur hafi kostað vel rúmlega 1,3 milljón króna þrátt fyrir að flugið hafi verið bókað með góðum fyrirvara. Það í ofanálag við að frá Reykjavík þurfi íþróttafólkið að fara með rútu á Ísafjörð þar sem Íslandsmót yngra flokka fór fram.

Mér blöskraði aðeins þegar ég var í vikunni að greiða fyrir flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og til baka fyrir hóp sem er að fara í Íslandsmót á Ísafirði. Eftir miklar pælingar er þetta besti kosturinn, að fljúga suður og taka svo rútu vestur. En hagstætt, nei. Flug fyrir 34, þar af 11 undir 12 ára á ÍSÍ fargjaldi, Föstudagsmorgun-mánudagsmorgun 1.340.000 krónur!!! Ef þetta er ekki galið.

Kostnaður farinn að standa í foreldrum

Sigríður segir mikil vonbrigði að þessi mikli kostnaður, sem að stórum hluta er borinn af foreldrum, geti hugsanlega farið að standa í vegi fyrir að íþróttir á landsbyggðinni geti blómstrað.

Getum við ekki gert betur við íþróttafólk? Gæti ríkið ekki til dæmis fellt niður skatta að flugferðum hjá íþróttafélögum til að tryggja þeim flug á viðráðanlegu verði? Loftbrú fyrir íþróttafélög?

Sigríður tekur skýrt fram að ekki sé verið að gefa í skyn að slæmt sé að halda mót á Ísafirði enda finnist ungmennunum yfirleitt mót úti á landsbyggðinni þau allra skemmtilegustu. Kostnaðurinn við ferðirnar sé þó orðinn svo mikill að það beinlínis komi í veg fyrir að sumir foreldrar ráði við þann kostnað.

Ellefu milljóna króna heildar ferðakostnaður 2024

Í samtali við Austurfrétt segir Sigríður að heildarkostnaður yngriflokkamótsins á Ísafirði hafi falist í tæpum tveimur milljónum króna fyrir ferðalagið eitt og sér í viðbót við átta hundruð þúsund króna gisti- og matarkostnað. Túrinn hafi því farið langleiðina í þrjár milljónir króna.

„Það er mjög sorglegt að þar sem ferðakostnaður er að stærstum hluta greiddur af foreldrum (þó deildin dekki alltaf hluta) þá kemur það alveg fyrir að ekki allir ráða við þetta þó við reynum okkar ítrasta til að allir geti komist með. Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) greiðir svo eftirá ferðastyrki. En við fengum til dæmis ferðastyrki fyrir 2,7 milljónir króna á móti 11 milljóna króna heildar ferðakostnaði.

U16 lið Þróttar á Neskaupstað varð Íslandsmeistari 2023 en þá var mótið haldið á Ísafirði. Síðan þá hefur flug- og ferðakostnaður hækkað nokkuð drjúgt. Mynd Aðsend