Skip to main content

Kalt að áramótum austanlands en hlýindakafli í kjölfarið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. des 2023 14:57Uppfært 29. des 2023 15:04

Tíu til tólf stiga frost er ríkjandi um mestallt Austurland í dag og frameftir nóttu en á morgun laugardag mun frostið minnka niður í fimm til átta stig um mestallan fjórðunginn. Það minnkar svo enn duglega á gamlársdag og nýtt ár mun heilsa með töluverðum hlýindum miðað við árstíma.

Frost og kuldi mun víkja fyrir hlýjari vindum næstu daga og gerir Veðurstofan ráð fyrir að nánast alls staðar í fjórðungnum verði hitastigið komið í rauðar tölur strax á mánudaginn kemur þann 1. janúar. Þeim hlýindum gæti fylgt töluverð væta og eða snjókoma í og með. Hvergi nema á hálendinu verður vart við frost á mánudaginn kemur og hitamælar á þriðjudag gætu náð allt að átta stigum á Egilsstöðum og Reyðarfirði.

Útlit er fyrir milt veður alls staðar austanlands á gamlársdag og gamlárskvöld ef frá er talið að hvessa mun nokkuð síðdegis þann dag á stöku stöðum. Vindur mun ná allt að tólf til fimmtán metrum á sekúndu á Vopna-, Borgar- og Seyðisfirði en annars staðar verður vindstyrkur kringum átta til tíu metra.