Kalt sumar haft áhrif á laxveiðina í Vopnafirði
Tiltölulega kalt sumar á Austurlandi hefur haft áhrif á laxveiði í Selá og Hofsá á Vopnafirði en þar búast menn við að árið endi í meðallagi.
Árnar tvær eru með allra bestu laxveiðiám landsins en það er veiðiklúbburinn Strengur sem hefur umsjón með þeim. Þar heldur Gísli Ásgeirsson um taumana en hann segir veðurfarið í sumar vissulega hafa haft áhrif í Vopnafirði sem víðar.
„Ég myndi svona ætla að þetta verði svona sumar í meðallagi hvað veiðina varðar í Hofsá og Selá. Eins og Austfirðingar vita þá hefur verið nokkuð kalt síðustu vikurnar og það hefur áhrif bæði á veiðarnar sjálfar sem og veiðimennina. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við höfðum nokkrar áhyggjur af því að fá töluvert af hnúðlaxi í árnar í sumar en reyndin verið að það hefur verið miklu minna af honum en við óttuðumst. Það eru sannarlega jákvæðar fréttir.“
Í byrjun mánaðarins þann 2. ágúst höfðu alls veiðst 526 laxar í Selánni en 515 alls í Hofsá. Heildarveiðin í þessum ám í fyrra voru 2.370 laxar alls svo töluvert vantar upp á að það náist það sem eftir lifir af veiðitímabilinu.