Kanna hvort fjöldi súlna í Vopnafirði hafi fallið fyrir fuglaflensu
Af hálfu Matvælastofnunar (MAST) er nú verið að kanna hvort rúmlega 30 dauðar súlur sem fundist hafa síðustu dægrin í Vopnafirði hafi látist úr fuglaflensu eða hvort einhverju öðru sé um að kenna.
Slíkur fjöldi dauðra fugla á tiltölulega afmörkuðu svæði gefur sterkar vísbendingar um að fuglarnir hafi fengið einhvern skæðan vírus en Brigitte Brugger, fuglasérfræðingur hjá stofnuninni, vill bíða niðurstaða rannsókna áður en úr því verði skorið. Hún segir þó að síðla sumars og snemma hausts sé sérstaklega mikilvægur tími sökum þess að þá eru margir ungfuglar á ferðinni. Þeir séu almennt viðkvæmari fyrir hvers kyns sýkingum en eldri fuglar.
„Það er búið að taka sýni og koma til rannsóknarstofu til að ganga úr skugga um hvað þarna sé á ferðinni. Ég á von á að við fáum skýr svör um orsakirnar síðar í þessari viku eða snemma í þeirri næstu. Þó fuglaflensu hafi ekki orðið vart nú um nokkurt skeið er þessi tími mikilvægur sökum ungfuglanna sem flögra um en þeir eru mun viðkvæmari fyrir hvers kyns sjúkdómum. Þess vegna erum við sérstaklega á varðbergi á þessum tíma og ég vil endilega biðja fólk um að hafa samband við okkur ef vart verður við dauða fugla um þessar mundir.“
Vel rúmur mánuður er síðan MAST var síðast tilkynnt um óvenjulegan fugladauða en þar var um að ræða fjölda dúfna sem fundust dauðar í Vestmannaeyjum síðla í júlí. Rannsókn leiddi í ljós að þar var ekki um fuglaflensu að ræða.
Því fer þó fjarri að flensan sú sé í rénun því allt frá Noregi til Spánar eru miklar viðvaranir í gangi vegna þessarar skæðu óværu.