Skip to main content

Karfa: Höttur vann Keflavík með öflugri liðsheild

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. nóv 2023 07:16Uppfært 10. nóv 2023 07:17

Gott gengi Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik heldur áfram. Liðið vann í gærkvöldi Keflavík 83-75 þegar liðin mættust á Egilsstöðum. Breiddin í liði Hattar sást vel þegar ólíkir leikmenn skiluðu sínum á ýmsum andartökum í leiknum.


Liðin skoruðu nokkuð grimmt framan af fyrsta leikhluta. Aðeins hægðist á undir lokin en Höttur átti síðustu körfuna og jafnaði í 23-23. Það gaf samt ekki tóninn fyrir næstu tvo leikhluta þar sem góðar varnir voru í aðalhlutverki.

Annan leikhlutann vann Höttur 17-10 og var því yfir 40-33 í hálfleik. Fyrstu átta mínúturnar skoruðu Keflvíkingar fimm stig en Keflvíkingar svöruðu á sama tíma með að loka á sóknarleik Hattar. Nemanja Knezevic átti frábæran leik á þessum kafla undir körfunni hjá Hetti, tók 8 fráköst og skoraði 8 stig.

Fyrri helming þriðja leikhluta skoraði Höttur aðeins fjögur stig. Keflavík vann fjórðunginn 12-21 og hafði 52-54 forustu fyrir síðasta leikhlutann.

Þar opnuðust gáttirnar, liðin fórnuðu vörninni en keyrðu upp hraðann. Höttur komst fljótt yfir og þegar á leið settu leikmenn liðsins niður mikilvæg þriggja stiga skot. Keflavík skaut þeim líka en þau fóru ekki ofan í. 9-3 kafli breytti stöðunni úr 69-68 í 78-71 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Þar með var leikurinn í raun unninn.

Deontaye Buskey skoraði 21 stig fyrir Hött, Obie Trotter 18 og Matej Karlovic 17. Nemanja Knezevic skoraði 14 stig og tók 18 fráköst. Höttur vann þá baráttu, 48-34. Það sem mestu skipti fyrir Hött var öflug liðsheild, sem birtist gleggst eftir fyrsta leikhlutann þegar átta leikmenn höfðu skorað stig.

Höttur er nú búið að vinna fjóra af sínum fyrstu sex leikjum og er liðið í 1. – 5. sæti. „Ég er hrikalega ánægður með að við höfum klárað þennan leik. Það er geggjað fyrir okkur að vinna Keflavík. Við erum í 4-2 sigurhlutfalli og það er eitthvað fyrir okkur að byggja ofan á.

Við vorum flatir, hægir og ekki nógu góðir í þriðja leikhluta. Eftir það komum við okkur í takt og komum til baka. Það er ekkert hik á okkur heldur förum við til að sækja sig. Það er þroskamerki á liðinu og sýnir sterka liðsheild.“

Mynd: Daníel Cekic