Kassaverksmiðjan gangsett í lok maí
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. mar 2022 15:39 • Uppfært 21. mar 2022 16:44
Framkvæmdir við kassaverksmiðju BEWI á Djúpavogi ganga vel og stefnt á að byrjað verði að framleiða í lok maí. Framleiðslan fer síðan á fullt í haust.
„Þetta hefur gengið mjög vel. Við erum aðeins á eftir áætlunum því íhlutum hefur seinkað vegna allra þeirra tafa sem eru í birgðakeðjum út af Covid-faraldrinum. Við ætluðum að gangsetja hana í mars en það verður trúlega ekki fyrr en seinni partinn í maí,“ segir Jón Þór Jónsson, verksmiðjustjóri.
Framkvæmdir hófust í júní í fyrra við 2700 fermetra bygginguna. Borgarhöfn hefur reist húsið en verktakar af Djúpavogi sáu um jarð- og steypuvinnu. Þessa dagana er verið að klára starfsmanna- og skrifstofuaðstöðu.
Fyrst í stað verða fimm starfsmenn í verksmiðjunni. Tveir þeirra eru teknir til starfa, sá þriðji mætir um næstu mánaðamót og sá fjórði með vorinu. Er miðað við eina vakt en tvær frá haustinu 2023, gangi áform um aukið fiskeldi á Austurlandi eftir. Þá er von á 2-3 starfsmönnum í viðbót.
Verksmiðjan, sem framleitt getur 500 laxakassa á klukkustund, verður keyrð í samræmi við þarfir. Þannig verður rólegt í sumar svo gott rúm ætti að gefast til að læra á tækin áður en laxaslátrunin hefst í haust.
Þótt verksmiðjan sé einkum byggð til að þjóna laxasláturhúsi Búlandstindar hentar hún einnig vel til að framleiða kassa fyrir fleiri sjávarútvegsfyrirtæki. Hjá BEWI stendur til að kanna áhuga annarra fyrirtækja eystra til að kaupa frauðplastskassa frá Djúpavogi.
Jón Þór segir mikið hagræði í að framleiða kassana á staðnum en til þessa hefur Búlandstindur fengið umbúðir sendar úr Hafnarfirði. „Þetta er gríðarlegt rúmmál. Þegar slátrun stóð yfir um síðustu áramót komu tíu gámar hvern virkan dag með tómum umbúðum, ýmist með skipi til Reyðarfjarðar eða á trukkum Djúpavogi. Það er mikið bras að tryggja að vinnslan fái alltaf umbúðir í takt við framleiðslu sína þannig þessu fylgir mikið hagræði, auk þess að minnka sótsporið.“
BEWI sjálft er stofnað fyrir um 40 árum í Noregi. Það er sérhæft í umbúðum fyrir sjávarútveg. Það er með starfsemi víða á Norðurlöndunum, meðal annars á Íslandi þar sem BEWI Iceland er rekið í samstarfi við Saltkaup. BEWI hefur sérhæft sig í framleiðslu umbúða fyrir sjávarútveg.