Skip to main content

Kertum fleytt fyrir frið á tveimur stöðum á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. ágú 2025 09:59Uppfært 06. ágú 2025 10:04

Í dag er þess minnst víða um heim að 80 ár eru síðan kjarnorkusprengju var í fyrsta sinn beitt í stríði þegar Bandaríkin vörpuðu einni slíkri á japönsku borgina Híróshíma. Friðarstundir verða bæði á Seyðisfirði og Reyðarfirði í kvöld.


Seyðfirðingar hafa minnst árásarinnar í áratugi. Áður var kertum fleytt á Lóninu en allra síðustu ár hefur það flust yfir á tjörnina framan við skólann. Þar verður safnast saman klukkan 22:00 í kvöld. Séra Sigríður Rún Tryggvadóttir flytur ávarp og sunginn verður fjöldasöngur.

Á Reyðarfirði verður kertafleyting í fyrsta sinn. Hún verður líka klukkan 22:00 við Andapollinn. Hildur Magnúsdóttir flytur ávarp, Jón Knútur Ásmundsson fer með ljóð og Karitas Harpa Davíðsdóttir syngur.

Þremur dögum eftir árásina á Híróshíma var kjarnorkusprengju einnig varpað á borgina Nagasakí. Áætlað er að 150.000-250.000 manns hafi látist beint í árásunum, langmest óbreyttir borgarar. Þá eru ótaldar aðrar afleiðingar árásanna eins og aukin tíðni krabbameins, einkum hvítblæðis, fyrstu árin á eftir. Kjarnavopnum hefur ekki verið beitt í vopnuðum átökum síðan.