Kjaraviðræðum í álverinu vísað til ríkissáttasemjara
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. apr 2025 18:55 • Uppfært 07. apr 2025 18:57
AFL starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslands ákváðu á fimmtudag að vísa kjaraviðræðum sínum við Alcoa Fjarðaál til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið síðan í desember.
Deiluaðilar hittust á fundi á fimmtudagsmorgun sem var árangurslaus. Félögin höfðu fyrir hann ákveðið að vísa deildinni til sáttasemjara finndu þeir ekki breytingu á afstöðu álversins og var það gert strax í framhaldinu.
„Það strandar í raun á öllu og er langt á milli. Við höfum aðrar hugmyndir en Alcoa Fjarðaál um launahækkanir,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.
Félögin lögðu fram kröfur sínar um miðjan desember og launakröfurnar undir lok janúar en samningarnir losnuðu 1. mars. Fundurinn á fimmtudag var sá fyrsti í þrjár vikur. Hjördís Þóra segir að ríkissáttasemjari hafi brugðist strax við og áformaður sé fundur í deilunni þriðjudag eða miðvikudag í vikunni eftir páska.
Undir félögin heyra nær allir starfsmenn í álverinu á Reyðarfirði sem koma að framleiðslunni. Utan við samningana stendur skrifstofufólk og sérfræðingar í öðrum félögum en einhverjir af þeim samningum taka þó mið af þeim samningum sem nú eru til umræðu.
Fleiri samningar stóriðjufólks eru til meðferðar hjá ríkissáttasemjara um þessar mundir, en þar eru samningar af Grundartanga, bæði járnblendiverksmiðju Elkem og álvers Norðuráls. Hjá fyrrnefnda fyrirtækinu var skrifaði undir samninga sem síðar voru felldir í atkvæðagreiðslu.