„Kjör bænda langt frá öllu sem eðlilegt getur talist“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. okt 2023 15:04 • Uppfært 26. okt 2023 15:08
Á meðan leitast er við að bæta kjör á almennum vinnumarkaði með styttingu vinnuvikunnar og hækkun launa þurfa bændur að vinna tvöfaldan vinnudag til að geta framfleytt sér. Bóndi á Reyðarfirði kallar eftir að gengið verið í að tryggja stöðugt starfsumhverfi íslensks landbúnaðar til framtíðar.
„Kjör bænda eru langt frá öllu sem eðlilegt getur talist. Á meðan almennur vinnumarkaður berst fyrir styttri vinnuviku, bættum kjörum og lengra orlofið berjast bændur við að geta framfleytt sér. Flestir þurfa að sækja vinnu utan bús, sem kemur niður á heilsu þeirra.
Samkvæmt búvörulögum að vinna að því að kjör bænda sé í samræmi við kjör annarra stétta og nýliðun auðvelduð. Það hefur ekkert verið gert til að framfylgja þessum markmiðum búvörulaga. Á sama tíma hafa bændur gengið að því sem þeim ber
Þeir hafa hagrætt samhliða því að bæta aðbúnað gripa og framleiða hágæða afurðir,“ sagði Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi á Sléttu í Reyðarfirði á fundi Samtaka ungra bænda (SUB) í dag.
Ekkert fæðingarorlof meðal bænda
Þar sagði hún frá því hvernig hún hefði fyrir þremur árum eignast dóttur sína, sem betur fer í júní á milli anna í sauðfjárbúskapnum. Hún hefði verið kasólétt á sauðburði og rétt náð að reka síðustu kindurnar á fjall áður en hún fór á fæðingadeildina. Síðan hefði dóttir hennar ýmist verið með eða verið pössuð af góðu fólki því „fæðingarorlof tíðkast ekki meðal bænda.“
Hún sagði dótturina núna spyrja hvers vegna hún færi ekki til útlanda eins og önnur börn því hún skyldi ekki skuldbindinguna sem fylgdi því að eiga foreldra sem séu bændur.
Nýliðar fara ekki af stað
Þuríður Lillý var meðal ræðumanna á baráttufundi sem SUB boðaði til í dag til að ræða stöðu íslensk landbúnaðar, einkum nýliðunar. Þuríður sagði að hún og maður hennar væru að „reyna krafsa sig í gegnum kynslóðaskipti“ á býli foreldra hennar, Sléttu í Reyðarfirði.
Það væri hins vegar ekki auðvelt, hvorki fyrir þau né annað ungt fólk sem vildi fara í búskap ef kjör væru eðlileg og fjárhagslegar skuldbindingar ekki langt umfram það sem búin geti staðið undan. Þuríður Lillý sagði að gjörbreyta þyrfti lánum og sköttum í landbúnaði. „Við látum ekki bjóða okkur upp á plástrameðferðir. Við viljum að landbúnaði sé tryggt eðlilegt starfsumhverfi til framtíðar.“
Vernda þarf land til matvælaframleiðslu
Hún sagði að grípa þyrfti til aðgerða til að tryggja landbúnað á góðum bújörðum. Bændur þyrftu að geta keypt þær á hagstæðu verði, þeir gætu ekki keppt við erlenda auðmenn né stórfyrirtæki sem vildu fara í kolefnisjöfnun. Tryggja þyrfti að seljendur lands hefðu hag af að selja það til matvælaframleiðslu. Þá hvatti hún til þess að sveitarfélög settu skilmála um landbúnaðarland í aðalskipulagi.
Þuríður Lillý lýsti núverandi stöðu sem grafalvarlegri og sagði bændur löngu komna að þolmörkum. Ef ekkert yrði að gert myndum bændum fækka áfram sem endi á jörðum í eyði og sveitum í niðurníðslu sem væri ekki það kennileiti sem drægi að erlenda ferðamenn. „Það er nógu dýrt að kaupa jarðir í rekstri. Þegar jarðir eru komnar í eyði verður ekki aftur snúið. Ef ekkert verður að gert þá verður framleiðslan ekki næg til að fæða þjóðina.“