Skip to main content

Kjörfundur hafinn hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. feb 2022 10:38Uppfært 26. feb 2022 10:43

Kjörfundur hófst í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð klukkan tíu í morgun þegar kjörstaður opnaði á Breiðdalsvík. Kjörið er bindandi fyrir fjögur efstu sætin á lista flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Sjö eru í framboði.


Opið er á Breiðdalsvík til hálf tólf en kjörfundurinn færir sig frá suðri til norðurs yfir daginn þar sem síðustu kjörstaðirnir verða opnir til klukkan átta í kvöld. Talið verður í Dalshúsi á Eskifirði og er vonast til að úrslit í kjörinu verði ljós um klukkan tíu í kvöld.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur verið opin í um tvær vikur og gengið vel, að sögn Sindra Karls Sigurðssonar, formanns kjörsóknar. Hann áætlar að kjörsókn þar sé rúm 15%.

Erfitt er þó að áætla heildarþátttöku í prófkjörinu þar sem áhugasamir kjósendur geta skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn í dag og fengið að kjósa. Kjósendur þurfa aðeins að búa í Fjarðabyggð, síðan geta þeir kosið á þeim stað sem þeir vilja.

Sjö eru í kjöri um fjögur sæti og héldu frambjóðendur sameiginlega framboðsfundi í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Sindri Karl segir kosningabaráttuna hafa gengið vel. „Við vissum kannski ekki fullkomlega hvað við værum að fara út í þegar við fórum af stað en áhuginn hefur komið skemmtilega á óvart."

Frambjóðendur í prófkjörinu:
Heimir Snær Gylfason, framkvæmdastjóri Neskaupstað, 1. - 4. sæti.
Helgi Laxdal Helgason, sérfræðingur Reyðarfirði, 3. - 4. sæti.
Jóhanna Sigfúsdóttir, viðskiptafræðingur Reyðarfirði, 4. sæti
Kristinn Þór Jónasson, verkstjóri Eskifirði, 2. sæti.
Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Reyðarfirði, 1. sæti.
Sigurjón Rúnarsson, sjúkraþjálfari Reyðarfirði, 2. - 4. sæti.
Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, leikskólastjóri Eskifirði, 3. - 4. sæti.

Opnunartímar kjörstaða:
Breiðdalsvík, Nesbúið frá kl. 10-11:30
Stöðvarfjörður, Steðjinn frá kl. 12-13:30
Fáskrúðsfjörður, Bókasafn Fjarðabyggðar frá kl. 14-17
Reyðarfjörður, Safnaðarheimili frá kl. 14-20
Eskifjörður, Dahls-hús frá kl. 14-20
Neskaupsstaður, Nesskóli frá kl. 14-20