Skip to main content

Klára brátt að rampa upp Múlaþing og Fjarðabyggð næst

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. ágú 2023 10:58Uppfært 17. ágú 2023 11:24

Verkefnið Römpum upp Ísland gengur afar vel og nú er svo komið að sérstakur vinnuflokkur á þeirra vegum lýkur vinnu sinni í Múlaþingi á næstu dögum og þá er stefnan tekin á Fjarðabyggð.

Allt að 800 rampar hafa nú verið settir upp um nánast allt land af hálfu samtakanna Römpum upp Ísland en alls skal setja upp 1500 í heildina fyrir marsmánuð 2025. Ljóst er að það næst og gott betur. Tilgangurinn að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra og eldra fólks að stofnunum og fyrirtækjum vítt og breitt um landið þeim að kostnaðarlausu. Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, var hvatamaður að verkefninu sem hlotið hefur stuðning víða að.

Að sögn Atla Freys Ríkharðssonar, verkstjóra, hefur gengið framar vonum en Austurlandið er í raun síðasti fjórðungurinn sem „rampaður“ verður upp þetta sumarið. Þeir hafa þegar lokið störfum á Borgarfirði eystra, Seyðisfirði og Djúpavogi og vonast til að klára á Egilsstöðum fyrir eða um helgina.

„Þá færum við okkur strax yfir í Fjarðabyggð sem er þá í raun lokaáfanginn að sinni en við tökum svo upp þráðinn að nýju næsta vor og höldum áfram. Þetta hefur gengið afar vel og okkur undantekningarlítið tekið vel enda gagnast þetta svo mörgum og ekki aðeins hreyfihömluðum heldur öllum þeim sem eiga bágt með gang.“

Vinnuhópur Römpum upp Ísland var að bæta aðgengi að söluturninum í Fellabæ þegar Austurfrétt bar að garði. Mynd AE