Knattspyrna: Auðveldara að fá nýja leikmenn en það var í vetur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. júl 2025 11:21 • Uppfært 24. júl 2025 11:22
Þrír nýir leikmenn eru komnir til FHL og verða með liðinu í kvöld þegar keppni hefst á ný í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu eftir frí vegna Evrópumóts kvenna. Þjálfari liðsins segir mikilvægt fyrir félagið að vinna leiki í seinni hluta mótsins en enginn slíkur náðist í fyrri hlutanum.
Leikmennirnir eru þær Candela Gonzalez, Taylor Hamlett og Isabelle Gilmore. Í staðinn eru farnar leikstjórnandinn Aida Kardovic, sem sleit krossband í hné, framherjinn Hope Santinello og bakvörðurinn Anna Hurley.
Candela er spænsk, hefur spilað í heimalandinu og í Bandaríkjunum. Hún er leikstjórnandi. Isabelle er bandarískur varnarmaður, sem að sögn Björgvins Karls Gunnarssonar þjálfara FHL, er fljót og góð í að bera boltann fram úr vörninni. Taylor er líka bandarísk, framherji sem Björgvin lýsir sem sterkum leikmanni og miklum leiðtoga.
Talsverð uppfærsla á liðinu
Í viðtali við Austurgluggann/Austurfrétt fyrir mót sagði Björgvin Karl að erfiðara hefði verið en áður að fá leikmenn úr háskólaboltanum, sem oft hefur reynst FHL vel, vegna nýrra deilda sem stofnaðar hafa verið í Norður-Ameríku. Nú í júlí virðist markaðurinn hafa verið betri.
„Það er greinilegt að einhver lið erlendis voru að breyta sínum leikmannahópum og við það losnaði nokkuð af leikmönnum sem vildu frekar koma til Evrópu en bíða eftir hvort tækifæri gæfust í þessum deildum,“ segir hann.
Björgvin Karl bindur vonir við nýju leikmennina. „Þetta er talsverð uppfærsla á liðinu. Við fáum nýja dýnamík í liðið og erum bjartsýn á að ná að klóra í bakkann.“
Hefði viljað 2-3 leiki
FHL á talsvert verk fyrir höndum. Fyrir sumarfríið voru spilaðar 10 af 18 umferðum í deildinni. FHL fékk ekkert stig og er neðst. Næst fyrir ofan er Víkingur með 7 stig, Tindastóll með 10 og svo Stjarnan og Valur með 12 stig.
„Við bjuggumst við að þetta yrði erfitt en miðað við spilamennskuna hefðum við viljað ná í 7-9 stig. Því miður small það ekki, það vantaði tengingar milli leikmanna og því miður kostaði ákveðið getuleysi okkur stig.“
Deildin hefur nú verið stopp í mánuð og meðan leikmenn frá bestu liðunum voru sumir í landsliðsverkefnum voru leikmenn FHL heima. „Við æfðum vel fyrstu vikuna eftir síðasta leikinn. Þar var gengið frá því hverjar færu en við stefndum alltaf á að þær sem kæmu lífguðu upp á hópinn. Okkur vantaði aðeins upp á hugarfarið og við fáum sterka karaktera inn.“
Enn mikið eftir af mótinu
FHL mætir í kvöld Val á Hlíðarenda. Í liðið vantar Maríu Fjölnisdóttur sem hefur glímt við meiðsli. Valsliðið hefur ekki náð þeim styrk sem liðið hefur sýnt fyrri ár en það rétt missti af Íslandsmeistaratitlinum í fyrra. „Valur er engu að síður með góða leikmenn sem klára leiki og sterka varnarmenn sem hafa verið í kringum landsliðið. Við leggjum allt í leikinn í kvöld.“
Að loknum leikjunum átján skiptist deildin í tvennt þar sem fimm neðstu liðin leika sín á milli um endanlega röð. Tvö þeirra falla að lokum. Þetta þýðir að talsvert er enn eftir af Íslandsmótinu og von þótt staðan sé svört.
„Tölfræðilega væri gott að ná aðeins í rassinn á hinum liðunum. Það væri vont að fara í umspilið með enga möguleika á að tolla í deildinni. En þótt það gangi ekki þá væri fyrst og fremst svekkjandi því aðalatriðið var að læra af tímabilinu og vaxa. Þess vegna væri mikilvægt að vinna nokkra leiki þannig stelpurnar okkar sjái að þær geti unnið þessi lið. Tölur á blaði um færi og góða leiki skipta engu síðar meir.“
Mynd: Unnar Erlingsson