Skip to main content

Knattspyrna: Fyrsti sigur Hattar/Hugins í sumar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2025 09:45Uppfært 16. jún 2025 09:46

Höttur/Huginn vann sinn fyrsta leik í annarri deild karla í sumar þegar liðið lagði Víking Ólafsvík 2-1 á heimavelli um helgina. Átta mörk voru skoruð í leik Einherja og BN, þar af skoruðu tveir leikmenn þrennu. Spyrnir er efstur í sinni deild.


Markalaust var í leik Hattar/Hugins og Víkings í hálfleik en á 52. mínútu skoraði Þórhallur Ási Aðalsteinsson úr víti. Gestirnir jöfnuðu skömmu síðar en Stefán Ómar Magnússon skoraði síðan sigurmarkið á 76. mínútu, níu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

KFA tapaði fyrir Kára á Akranesi í hörkuleik, 3-2. Matheus da Silva kom KFA yfir strax á þriðju mínútu en heimamenn voru komnir í 2-1 fyrir leikhlé. Marteinn Már Sverrisson jafnaði á 62. mínútu en tíu mínútum síðar kom þriðja mark Kára.

Leikurinn kristallaði sumarið hjá KFA sem hefur spilað ágætlega á köflum en fengið á sig of mörg mörk miðað við fjölda færa gestanna. Liðið er með eitt stig úr síðustu fimm leikjum og er komið niður í níunda sæti. Þrátt fyrir sigurinn er Höttur/Huginn enn á botninum.

Tveir skoruðu þrennu á Vopnafirði


Í B-riðli fimmtu deildar karla er Spyrnir kominn á toppinn eftir 2-1 sigur á Stokkseyri. Arnór Snær Magnússon skoraði bæði mörk Spyrnis í fyrri hálfleik. Rétt er þó að taka fram að liðið hefur leikið fimm leiki, meðan flest liðin fyrir neðan eru búin með fjóra.

Átta mörk voru skoruð í gær þegar Einherji tók á móti BN í utandeild KSÍ. BN vann 3-5. Gunnlaugur Baldursson skoraði öll mörk Einherja og hjá BN skoraði Zvonomir Blaic líka þrennu. Auk hans skoruðu Freysteinn Bjarnason og Hákon Huldar Hákonarson fyrir BN.

Neisti Djúpavogi vann Fálka 1-2 í sömu deild. Fálkarnir voru yfir í hálfleik en Rökkvi Pálmason og Birgir Viðar Haraldsson skoruðu fyrir Neista.

FHL án stiga eftir fyrstu umferð mótsins


Ekkert gengur hjá FHL í Bestu deild kvenna. Liðið tapaði í gær 0-4 fyrir Víkingi á heimavelli, en Víkingur var fyrir leikinn næst neðsta liðið. Öll mörkin komu eftir að seinni hálfleikur var hálfnaður.

Deildin er núna hálfnuð og FHL án stiga með -25 mörk. Liðið hefur aðeins skorað í tveimur leikum af þeim sem búnir eru. Það tekur á móti Tindastóli, sem einnig er í neðri hlutanum, á föstudag. Rétt er þó að hafa í huga að spiluð er tvöföld umferð í deildinni, áður en hún skiptist í efri og neðri hluta þar sem liðin í hvorum helmingi leika sín á milli um endanlega röð. Þá er deildin nú fljótlega á leið í frí vegna Evrópumóts kvenna. Enn er því mikið eftir af mótinu.

Í annarri deild kvenna gerði Einherji 1-1 jafntefli við Fjölni á útivelli. Coni Ion skoraði mark Einherja úr víti á 25. mínútu. Fjölnir jafnaði á annarri mínútu uppbótartíma og enn síðar fékk Ainhoa Fernandez, leikmaður Einherja, sitt annað gula spjald og þar með það rauða.

Mynd: Unnar Erlingsson