Knattspyrna: KFA áfram í undanúrslit Lengjubikarsins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. mar 2023 08:04 • Uppfært 31. mar 2023 08:04
Knattspyrnufélag Austfjarða innsiglaði um síðustu helgi sigur sinn í 4 riðli B deildar Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Höttur/Huginn endar þar í öðru sæti. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði stórt fyrir Gróttu í B deild Lengjubikars kvenna.
KFA vann Fjallabyggð um síðustu helgi 0-4. Úrslitin voru ráðin eftir rúman hálftíma því þá voru öll mörk leiksins komin.
William Suarez skoraði strax á 5. mínútu, Marteinn Már Sverrisson á 19. mínútu, Unnar Ari Hansson á 29. mínútu og loks Suarez aftur á 33. mínútu.
Höttur/Huginn vann Dalvík/Reyni 2-3 fyrir norðan. Heimaliðið komst yfir á 5. mínútu en Björgvin Stefán Pétursson jafnaði á 9. mínútu og Sæbjörn Guðlaugsson kom Hetti yfir á 15. mínútu. Bjarki Fannar Helgason bætti við þriðja markinu í upphafi seinni hálfleiks en gestirnir minnkuðu muninn þegar tuttugu mínútur voru eftir.
Höttur/Huginn endar í 2. sæti riðilsins með 9 stig og er búið með sína leiki. KFA er í efsta sætinu, hefur unnið alla sína leiki og er með 12 stig. Liðið á enn leik eftir, gegn Völsungi á útivelli um helgina, áður en undanúrslit deildarinnar byrja.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði 0-6 fyrir Gróttu á heimavelli um helgina. Seltjarnarnessliðið var ekki nema 0-1 yfir í hálfleik en raðaði inn mörkum í þeim seinni. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á tvo leiki eftir sem spilaðir verða eftir páska.