Skip to main content

Knattspyrna: KFA komið upp í annað sætið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jún 2023 10:55Uppfært 26. jún 2023 10:59

Knattspyrnufélag Austfjarða vann sig upp í annað sæti annarrar deildar karla í knattspyrnu með sigri eftir að hafa lent 0-2 undir um helgina. Höttur/Huginn snéri einnig jafn slæmri stöðu sér í hag.


KFA tók á móti Haukum í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Gestirnir komust yfir strax á fimmtu mínútu með marki úr víti og bætti við öðru tíu mínútum síðar. Þannig var staðan í hálfleik.

Inigo Albizuri minnkaði muninn á 48. mínútu og Heiðar Snær Ragnarsson jafnaði á 52. mínútu. Það var síðan Mykolas Krasnovskis sem tryggði KFA sigurinn á 83. mínútu.

Höttur/Huginn lenti líka í brasi gegn KV í Vesturbæ Reykjavíkur um helgina og var komið 2-0 undir eftir 20 mínútur. Dani Ndi minnkaði muninn á 37. mínútu. Hann jafnaði leikinn á 52. mínútu og Víðir Freyr Ívarsson kom Hetti yfir mínútu síðar.

Eiður Orri Ragnarsson skoraði fjórða mark Hattar/Hugins á 87. mínútu en heimamenn minnkuðu muninn í uppbótartíma leiksins. Nær komust þeir ekki en aðstoðarþjálfari þeirra fékk rautt spjald í blálokin.

KFA er í öðru sæti deildarinnar með 17 stig úr níu leikjum og hefur ekki enn tapað leik. Víkingur Ólafsvík er efst með 19 stig. Þróttur Vogum er jafn KFA að stigum en með verra markahlutfall. KFG er með 16 stig en síðan kemur Höttur/Huginn með 14 stig.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL fyrir Fylki á heimavelli 2-4. Fylkir komst yfir strax á 7. mínútu en Björg Gunnlaugsdóttir jafnaði á 57. mínútu og Sofia Lewis kom FHL yfir á 60. mínútu. Fylkir snéri leiknum aftur sér í vil með mörkum á 71. og 73. mínútu og innsiglaði sigurinn með marki á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Einherji tapaði fyrir Fjölni í annarri deild kvenna syðra á fimmtudag 1-0. Liðið er í áttunda sæti með níu stig. Jovana Milinkovic, sem lék með Einherja árin 2018 og 19 var aðstoðardómari í leiknum. Hún leikur nú með KR.

Mynd: Jón Guðmundsson