Knattspyrna: KFA úr leik í bikarkeppninni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. apr 2023 08:27 • Uppfært 21. apr 2023 08:28
Knattspyrnufélag Austfjarða er úr leik í bikarkeppni í karla í knattspyrnu eftir 4-1 ósigur gegn Njarðvík í gær. Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis spilar síðasta leik sinn í Lengjubikarnum á morgun.
Markalaust var í Njarðvík í hálfleik en heimamenn komust yfir eftir klukkutíma leik og bættu fljótlega við öðru marki.
KFA fékk möguleika undir lokin þegar Marteinn Már Sverrisson skoraði á 86. mínútu. En í stað þess að KFA tækist að jafna kom Njarðvík í bakið á þeim og skoraði tvö mörk í uppbótartíma.
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tapaði fyrir Víkingi Reykjavík 1-2 í B deild Lengjubikars kvenna um síðustu helgi. Sofia Lewis kom FHL yfir á 12. mínútu með marki í fyrsta leik sínum fyrir félagið. Að auki spiluðu þær Natalie Cooke og Ashley Orkus sinn fyrsta leik fyrir félagið en þær koma allar úr bandaríska háskólaboltanum.
Víkingur jafnaði rúmum tíu mínútum síðar og skoraði svo sigurmark í seinni hálfleik. FHL lýkur leik í Lengjubikarnum gegn HK í Kópavogi á morgun. Tvær vikur eru síðan í að Íslandsmót karla hefjist.