Skip to main content

Knattspyrna: Loksins vann KFA útileik

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. júl 2023 10:05Uppfært 26. júl 2023 10:05

Knattspyrnufélag Austfjarða vann í gærkvöldi Fjallabyggð á Ólafsfjarðarvelli sem jafnframt er fyrsti útisigur liðsins í sumar. Höttur/Huginn skoraði sigurmark gegn Völsungi manni færri.


Markalaust var í hálfleik á Ólafsfirði í gærkvöldi en leikmaður heimamanna kom KFA yfir á 51. mínútu með sjálfsmarki. Arek Grzelak kom KFA í 0-2 á 62. mínútu og Danilo Milenkovic skoraði þriðja markið á 77. mínútu. Fjallabyggð minnkaði muninn í uppbótartíma.

KFA vann þar með sinn fyrsta útileik í sumar, þegar Íslandsmótið er rúmlega hálfnað. Á móti kemur að liðið er enn ósigrað eftir 13 leiki. Með sigrinum náði KFA aftur öðru sæti, fór upp fyrir Dalvík/Reyni á markatölu. Bæði lið hafa 25 stig. Mikilvægara er þó að KFA er núna aðeins stigi á eftir toppliðinu, Víking Ólafsvík, sem tapaði um helgina.

Matheus Bettio kom Hetti/Huginn yfir strax á fimmtu mínútu gegn Völsungi í gærkvöldi en gestirnir jöfnuðu á 54. mínútu. Á 80. mínútu fékk Almar Daði Jónsson, leikmaður Hattar/Hugins, beint rautt spjald auk þess sem tveir aðrir, hvor úr sínu liðinu, fengu gult spjald eftir atgang. En það kom ekki í veg fyrir að Alberto Lopez skoraði sigurmark Hattar/Hugins á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Hött/Huginn sem tapað hafið þremur leikjum í röð. Liðið er í 7. sæti með 17 stig, fimm stigum frá Fjallabyggð sem er í fallsæti.

Leikið er þétt um þessar mundir. Bæði lið eiga tvo leiki eftir fyrir verslunarmannahelgi, á laugardag og á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku.