Knattspyrna: Markalaust jafntefli í Grindavík
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. maí 2022 09:35 • Uppfært 27. maí 2022 10:02
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir gerði í gær markalaust jafntefli við Grindavík í 2. deild kvenna í knattspyrnu. Liðið fær bikarmeistara Breiðabliks í heimsókn á sunnudag í 16 liða úrslitum keppninnar.
Eftir leikinn í gær er Austfjarðaliðið enn í efri hluta deildarinnar, með sjö stig úr fjórum leikjum. Næsta lið á eftir er Grindavík með fjögur stig.
Hlé er á deildinni um helgina vegna bikarsins. Breiðablik, bikarmeistarar síðasta sumars sem í haust léku í Meistaradeild Evrópu, koma í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina á sunnudag klukkan 13.00. Þrír fyrrum leikmenn frá Fjarðabyggð/Hetti/Leikni, þær Telma Ívarsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Heiðdís Lillýardóttir, spila með Blikum.
Einherji tapaði 1-4 fyrir Gróttu í annarri deild kvenna í gær. Mark Einherja var sjálfsmark mótherjanna eftir um hálftímaleik. Með því jafnaði Einherji leikinn en lenti aftur undir skömmu fyrir leikhlé. Gestirnir skoruðu síðan tvö mörk undir lok leiksins.
Spyrnir tekur á móti Einherja á Fellavelli í kvöld í fjórðu deild karla en í henni heimsækir BN Hamrana á Akureyri á morgun.
Í annarri deild karla tekur Höttur/Huginn á móti Víking Ólafsvík á morgun meðan KFA spilar gegn Ægi í Þorlákshöfn.