Knattspyrnufélag Austfjarða mun nýtt sameinað lið heita

„Þátttakan var alveg með ólíkindum og mér telst til að vel yfir fjögur hundruð tillögur hafi borist í heildina,“ segir Magnús Árni Gunnarsson, deildarstjóri íþróttamála hjá Fjarðabyggð.

Hann hefur, meðal annarra, haft veg og vanda af því að efnt var til hugmyndasamkeppni um nýtt nafn á óstofnað sameiginlegt knattspyrnufélag helstu félaga í Fjarðabyggð fyrir nokkru síðan og nú er niðurstaðan ljós. Nýja nafnið verður Knattspyrnufélag Austfjarða, skammstafað KFA.

Gerð var krafa um  það varðandi nafngiftina að nafnið endurspeglaði metnað, sameiningarafl og heiðarleika auk þess sem það yrði að vera þjált í munni, auðvelt til hvatningar og vitaskuld standast allar íslenskar málvenjur. Sérstök nafnanefnd, skipuð formönnum stjórna Austra, Súlunnar, Leiknis, Vals, Hrafnkells Freysgoða og Þróttar auk Magnúsar, völdu heppilegustu nafngiftina.

Magnús segir þátttökuna hafa komið mjög á óvart. „Næstum einn af hverjum tíu í sveitarfélaginu öllu sendi inn hugmynd að nafni sem er frábært því það sýnir að margir hafa á þessu áhuga. Við fórum gaumgæfilega yfir allar tillögurnar og þessi stóð upp úr að okkar mati.“

Nýja liðið sem hér um ræðir er hið áður sameinaða lið Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar auk Leiknis frá Fáskrúðsfirði en þessi félög hafa sem kunnugt er leikið sitt hvoru lagi.

Mynd: Knattspyrnulið Fjarðabyggðar féll í þriðju deildina eftir leiktíðina 2021 meðan Leiknir hélt sér í þeirri annarri. Í sumar leggja þau saman krafta sína í einu og sama liðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.