Skip to main content

Könnun meðal íbúa Austurlands um árangurinn af Dögum myrkurs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. des 2023 15:19Uppfært 04. des 2023 16:29

Hvað finnst þér um austfirsku hátíðina Daga myrkurs og hvers vegna finnst þér það? Tvær af allmörgum spurningum í könnun sem Austurbrú stendur nú fyrir á netinu til að fá fram álit íbúa í fjórðungnum á hvernig tekist hafi til með þessa einu sameiginlegu hátíð alls Austurlands.

Vart þarf að kynna þessa menningar- og skemmtihátíð fyrir Austfirðingum sjálfum enda löngu orðinn fastur liður í lífinu á Austurlandi. Hátíðin verið haldin meira og minna frá aldamótum og upplagið ávallt að varpa smá ljósi inn í líf fólks þegar kolsvart myrkrið er farið að leika stórt hlutverk að vetrarlagi. Hefur reyndar lítillega borið á gagnrýni vegna þess hve seint hátíðin er haldin ár hvert en þeir fleiri sem telja það kost en ekki galla. Ekki síst þar sem hún fer fram um svipað leyti og Hrekkjavakan enda hefur verið reynt að blanda þessu tvennu aðeins saman síðustu árin að sögn Halldóru Drafnar Hafþórsdóttur hjá Austurbrú.

Nú skal reyna að gera gott betra en sérstök aðgerðaáætlun sem gerð var 2019 vegna hátíðarinnar hefur runnið sitt skeið og sérstakur starfshópur hyggst skerpa á hlutunum næstu árin með nýrri og betri áætlun. Þess vegna er nú leitað til íbúanna sjálfra með hugmyndir að sögn Halldóru.

„Könnunin finnst á netinu bæði á íslensku og ensku og við viljum endilega fá sem flesta til að leggja sitt til málanna og starfshópurinn mun í kjölfarið ráða ráðum sínum hvernig gera megi meira úr Dögum myrkurs á næstu árum. Það hefur sýnt sig að ef tilteknir aðilar í hverjum bæjarkjarna fyrir sig taka höndum saman hefur þetta tekist hvað best og slíkt fyrirkomulag gæti vel verið það sem koma skal. Það þarf ábyrga og áhugasama aðila til að halda utan um svona verkefni.“

Halldóra segir þegar ágæt viðbrögð við könnuninni sem finna má hér en því fleiri því betra til.

Einn stór viðburður á Myrkur dögum er ljósmyndasamkeppnin en hér gefur að líta mynd þá sem var best valin þetta árið. Mynd Austurbrú.is/Jón Einar Ágústsson