Körfuboltavöllurinn sem hallar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. maí 2022 11:21 • Uppfært 05. maí 2022 11:21
Nýlegur körfuboltavöllur við Eskifjarðarskóla varð einn af miðpunktum athyglinnar á framboðsfundi þar í gærkvöldi. Sjálfstæðismenn segja sveitarfélagið hafa misst framkvæmdina út úr höndunum.
Það var skollið á myrkur og aðeins skíma frá nokkrum útiljósum þegar frambjóðendur og nokkrir fundargestir héldu út fyrir skólann á ellefta tímanum í gærkvöldi. En þótt birtan væri ekki meiri varð strax ljóst að fullyrðingar fundargesta, sem sögðu völlinn halla undan brekkunni, væru sannar.
Á fundinum höfðu fulltrúar meirihlutans, Jón Björn Hákonarson oddviti Framsóknar sem jafnframt er bæjarstjóri og Stefán Þór Eysteinsson, sem er nýr í leiðtogasæti Fjarðalistans, boðist til að fara út eftir fundinn til að skoða völlinn því þeir tryðu því vart að völlurinn hallaði.
„Ég hlakka til að sjá hvað þykir rammskakkt hér,“ sagði Stefán Þór og lýsti vantrú á að glænýr völlurinn væri ekki í lagi. Báðir tóku þeir þó fram að þeim þætti mjög miður ef völlurinn væri ekki í lagi. „Það er djöfullegt ef völlurinn hallar,“ sagði Jón Björn.
Þeir tóku einnig fram að í ferlinu, sem hófst eftir frumkvæði íbúa, hefði verið rætt um stærri völl annars staðar en á endanum hefði verið ákveðið að setja upp völl með tveimur körfum til að ná sem bestri nýtingu á skólalóðinni. Á fundinum kom fram gagnrýni að völlurinn hefði verið sett beint niður í gamalt bílaplan sem leiddi til þess að hann bæði hallaði og væri orðinn holóttur.
Kristinn Þór Jónasson, annar maður á lista Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi formaður Íbúasamtaka Eskifjarðar sem ýttu af stað söfnun fyrir körfuboltavelli, sagði málið hafa orðið til þess að hann ákvað að taka slaginn í kosningabaráttu eftir að hafa staðið í tvö ár í stórfurðulegum samskiptum við sveitarfélagið.
Hann rakti hvernig samtökin hefðu safnað 3,5 milljónum hjá fyrirtækjum í bænum og teiknað upp 20x11 metra völl með fjórum körfum sem að auki hafi átt að vera „upphitaður og láréttur“. Þegar málið var kynnt Fjarðabyggð hafi kostnaðurinn verið kominn í 32 milljónir.
Hann sagði íbúasamtökin hafa boðist til að finna verktaka. Því hafi ekki verið tekið heldur sveitarfélagið lagt fram tvær milljónir og gengið í vallargerðina. Að auki hefði völlurinn ekki verið minnkaður í hlutföllum út frá upphaflegu teikningunum.
„Þetta er dæmigert fyrir að vilja ekki vinna með íbúum. Þetta er yfirgangur í ákveðnum aðilum sem keyptu þar sem þeir vildu en ekki íbúarnir. Þetta á að laga og þess vegna er ég að fara í þetta.“