Körfubolti: Guers náði þrefaldri tvennu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. mar 2022 10:10 • Uppfært 14. mar 2022 12:36
Bandaríkjamaðurinn Tim Guers náði þrefaldri tvennu þegar Höttur burstaði ÍA í fyrstu deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld.
Þreföld tvenna er þegar leikmaður nær tveggja stafa tölu í fráköstum, stigum og stoðsendingum. Guers lauk leiknum með 20 stig, 13 stoðsendingar og 12 fráköst en hann spilaði ekki nema rúmar 26 mínútur.
Skagaliðið byrjaði betur og var yfir 4-11 eftir tvær mínútur. Það var langmesta forusta þess í leiknum og þótt hún minnkaði strax náðu gestirnir samt að vera skrefinu á undan út fyrsta leikhluta. Eftir hann var staðan 25-27.
Höttur tók leikinn í sínar hendur þegar mínúta var búin af öðrum leikhluta, skoruðu 15 stig í röð, breyttu stöðunni úr 27-32 í 42-32 og litu aldrei um öxl.
Í hálfleik var staðan 58-47, 100-65 eftir þriðja leikhluta og 128-84 í lokin. Arturo Fernandez var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig en Juan Luis átti einnig góðan dag með 16 stig og 13 fráköst.
Heil umferð verður leikin í deildinni í kvöld. Höttur fer á Höfn og mætir Sindra sem er í fjórða sæti. Augu Hattarfólks verða þó líka á leik Hauka, sem Höttur vill ná efsta sætinu af og Álftaness sem er í þriðja sæti.