Körfubolti: Höttur réði ferðinni í sigri á Álftanesi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. des 2023 10:34 • Uppfært 15. des 2023 11:32
Eftir tvo tapleiki í röð komst Höttur á sigurbraut í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á ný með 78-73 sigri á nýliðum Álftaness þegar liðin mættust á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfari Álftaness hrósaði vaxandi körfuboltamenningu á Héraði eftir leikinn.
Höttur byrjaði síga fram úr um miðjan fyrsta leikhluta. Bæði lið voru farin að sýna það sem átti eftir að verða aðalsmerki leiksins, líkamlega baráttu og góðan varnarleik, en á þessum kafla fór Höttur að hitta úr skotum sínum utan af velli. Höttur var 22-14 yfir eftir fyrsta leikhluta og 44-39 í hálfleik, þrátt fyrir að hafa aðeins skorað þrjú stig síðustu fimm mínúturnar fyrir leikhlé.
Höttur fór ágætlega af stað í þriðja leikhluta en aftur þvarr stigaskorunin eftir miðjan leikhluta. Lukkan fólst þó í að hún gekk ekkert betur hjá gestunum, síðustu sex mínúturnar voru samanlagt skoruð átta stig. Leikurinn einkenndist af hnoði þar sem menn reyndu að troðast áfram undir körfunni.
Höttur leiddi 61-52 þegar fjórði leikhlut hófst. Lítið var skorað framan af en síðan opnaðist leikurinn með þriggja stiga skotum. Álftanes náði að minnka muninn í 68-65 með tveimur slíkum í röð en Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, setti þá niður þriggja stiga skot og stal síðan boltanum í næstu sókn og skoraði. Þar með var Höttur á ný komið í átta stiga forskot.
Adam Eiður var stigahæstur með 25 stig. Vert er að minnast á framlag miðherjans Nemanja Knezevic sem tók 14 fráköst. Liðið tók alls 48 fráköst, sem telst vel að verki staðið í þessum mikla baráttuleik.
Sama þótt sigurinn sé ekki fallegur
„Álftanes er þrusugott lið og ég er mjög ánægður með liðið í kvöld. Mér fannst við stjórna hraðanum vel, vera skynsamir og agaðir í flestum tilfellum þótt alltaf komi einhverjar gloríur. Við náðum forustu og héldum henni. Það var þrisvar sem Álftanes kom til baka og leikurinn var jafn en við rifum okkur frá aftur,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.
„Þeir skoruðu heldur ekki mikið þarna. Við vorum með fáa tapaða bolta. Hnoðið skilaði sér að því leiti. Ef þér finnst þetta ljótt þá er mér drullusama. Við unnum þennan leik. Höttur er að verða betri í að vinna leiki, bæði sem lið og samfélag. Meðan við löndum sigri er okkur skítsama hvernig,“ sagði hann um þann kafla sem liðunum gekk verst að skora.
Jákvæð körfuboltamenning
Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, notaði tækifærið í viðtali eftir leikinn til að hrósa umgjörðinni í kringum körfuboltann á Egilsstöðum. „Ég hef komið hérna nokkuð oft til að spila körfubolta. Við erum að breiða út körfuboltann út sem okkar gospel. Að sjá svona menningu eins og hér er það sem mér finnst allt ganga út á. Liðið er vel þjálfað og spilandi, fólkið er flott í stúkunni og tekur vel á móti manni. Það er gaman að sjá þessa jákvæðu menningu hér á Austurlandi.“
Löngum hafa verið sterk tengsl milli félaganna tveggja. Meðan Álftanes spilaði í annarri deildinni var liðið að miklu leyti skipað brottfluttum Hattarmönnum. Í dag eru tveir fyrrum leikmenn Hattar í Álftanesi, Dino Stipcic og Eysteinn Bjarni, sem er uppalinn eystra. „Taugin er sterk. Það má segja að Álftanes hafi verið Höttur B í gamla daga. Þeir eru allmargir sem hafa flutt á Álftanes frá Egilsstöðum og nærsveitum.“
Mynd: Daníel Cekic