Körfubolti: Höttur tapaði stórt í Keflavík

Höttur tapaði í gærkvöldi illa, 110-71, fyrir Keflavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Liðið á mikilvægari leik í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppninni á fimmtudag.

Höttur vann fyrri leik liðanna í deildinni á Egilsstöðum en tapaði illa í bikarnum og svo að segja aldrei séns í gærkvöldi. Strax eftir tvær mínútur breytti Keflavík stöðunni úr 8-5 í 20-9 og var yfir eftir fyrsta leikhluta 35-16.

Höttur átti annan slæman kafla í öðrum leikhluta þegar Keflavík jók forustuna úr 40-24 í 51-24. Staðan í hálfleik var 62-39. Keflavík keyrði sóknarleikinn af miklum hraða og Hetti gekk illa að stilla upp í varnarstöðu. Sérstaklega í fyrsta leikhluta tók liðið ótímabær skot eða úr vondri stöðu.

Úrslitin voru því svo að segja ráðin. Keflavík var 84-56 yfir eftir þriðja leikhluta en í þeim fjórða hélst munurinn í horfinu og endaði 110-71. Þar voru liðin farin að skipta inn leikmönnum sem alla jafna spila minna. Þeir Jóhann Einarsson, Sveinbjörn Fróði Magnússon og Óliver Árni Ólafsson spiluðu allir rúmar tíu mínútur í gær. Óliver Árni skoraði 7 stig. Gísli Þórarinn Hallsson var annars stigahæstur Hattar með 13 stig.

Ástæða var til að skipta út leikmönnum, bæði vegna frammistöðunnar, en líka vegna þess að Höttur tekur á fimmtudag á móti Haukum. Hafnarfjarðarliðið er í tíunda sæti deildarinnar en Höttur í því áttunda, sem gefur rétt í þátttöku í úrslitakeppninni. Höttur á eftir að spila við lið sem eru í kringum það í deildinni.

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, sagði frammistöðu liðsins hafa verið flata, andlausa og yfir höfuð hörmulega í viðtali við Vísi eftir leikinn.

Hattarliðið hefur glímt við meiðsli og veikindi að undanförnu. Miðherjinn Nemanja Knezevic var í hópnum í gærkvöldi en hann hefur verið veikur. Matej Karlovic var líka á skýrslu en hann meiddist í baki í desember. Hvorugur spilaði þó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar