Körfubolti: Höttur úr leik í baráttunni um efsta sætið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. mar 2022 09:53 • Uppfært 15. mar 2022 09:54
Höttur á ekki lengur möguleika á efsta sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir tap gegn Sindra á Höfn í gærkvöldi. Liðið þarf því í gegnum úrslitakeppni til að komast upp í úrvalsdeild.
Leikurinn á Höfn í gærkvöldi varð hörkuviðureign þar sem liðin skiptust 18 sinnum á forustu og 12 sinnum var jafnt. Því miður varð síðasta sveiflan í leiknum í ranga átt 14 sekúndum fyrir leikslok.
Höttur fór ágætlega af stað og var kominn í 12-17 um miðjan fyrsta leikhluta, en staðan eftir hann var 28-31.
Eftir þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta náði Höttur sínu mesta forskoti, 13 stigum eða 30-43. Sindraliðið svaraði með skora níu stig í röð og breyta stöðunni úr 33-45 í 42-45. Hornfirðingar héldu síðan áfram og voru 52-50 yfir í hálfleik.
Höttur náði aftur frumkvæðinu í þriðja leikhluta og var yfir 65-70 eftir hann. Sindramenn byrjuðu hins vegar lokaleikhlutann á tveimur þriggja stiga körfum og komust yfir, 71-70.
Höttur var aftur yfir 75-77 en þá komu fimm stig frá heimaliðinu í röð. Höttur komst yfir í 83-85 og var yfir, 88-92 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Sindri skoraði hins vegar síðustu sex stig leiksins, síðustu körfuna þegar 14 sekúndur voru eftir. Höttur fékk boltann en náði ekki skoti og Sindri vann því 94-92. Tim Guers var langstigahæstur í liði Hattar með 32 stig.
Hvað þýða úrslitin?
Úrslit gærkvöldsins þýða að Höttur á ekki lengur möguleika á að stela efsta sætinu, sem gefur beint sæti í úrvalsdeild, af Haukum. Þeir hafa sex stiga forskot. Höttur getur jafnað það, með að vinna þá þrjá leiki sem liðið á eftir og ef Haukar tapa sínum tveimur. Liðin mætast í Hafnarfirði í síðustu umferðinni.
En þótt Höttur jafni stigin ræðst röðunin á innbyrðisviðureignum og þar hafa Haukar unnið í bæði skiptin sem liðin hafa mæst í vetur.
Öruggt er hins vegar að Höttur á heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Liðin í 2. – 5. sæti spila þar um annað laust úrvalsdeildarsæti. Liðið í öðru sæti spilar gegn því í fimmta og mætir síðan því liði sem hefur betur í einvígi liðanna í þriðja og fjórða sæti.
Í sætunum á eftir Hetti eru Sindri, Álftanes og Fjölnir í þessari röð. Ekki er ljóst hvernig þau raðast, aðeins öruggt að þetta verða liðin í úrslitakeppninni. Líkur má leiða að því að Fjölnir verði mótherji Hattar í úrslitakeppninni, en liðin mætast á Egilsstöðum næsta mánudagskvöld. Höttur leikur þó næst gegn Hamri á föstudag.