Körfubolti: Líkur á að David Ramos fari í leikbann

Allar líkur eru á að David Guardia Ramos, leikmaður körfuknattleiksliðs Hattar, þurfi að taka út leikbann vegna brots hans gegn Frank Booker, leikmanni Vals, í leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmótsins í gærkvöldi.

David var vísað af velli um miðjan annan leikhluta í gær eftir viðskipti sín við Booker. Sá síðarnefndi sló fyrst til Davids þar sem þeir biðu undir körfunni eftir frákasti. Þar sem þeir snéru baki í næsta dómara var erfitt fyrir hann að sjá atvikið.

David féll í gólfið og sparkaði þá til Bookers og hitti í punginn á honum. Það var beint fyrir framan nefið á dómaranum sem sendi David út úr húsi.

Valur vann leikin að lokum 94-74 og tók þar með forskot í einvíginu, 2-1, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í undanúrslit. Næsti leikur verður á Egilsstöðum á mánudagskvöld.

Líkur eru á að David verði í banni í þeim leik. Útilokun þýðir þó ekki sjálfkrafa leikbann en hefur það oftast í för með sér. Þær upplýsingar fengust hjá Körfuknattleikssambandi Íslands í morgun að atvikið hafi verið sent aga- og úrskurðarnefnd sambandsins til meðferðar. Hún kemur saman um helgina og tekur ákvörðun um endanlega refsingu Hattarleikmannsins í tíma fyrir leikinn á mánudag.

Þótt atvikið væri nálægt varamannabekk Hattar horfðu þeir sem þar voru annað á örlagastundinni. „Ég sá þetta ekki nákvæmlega en dómararnir telja sig hafa séð þetta,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Flest lið deildarinnar, þar á meðan Höttur, eru komin með búnað þannig dómarar geti horft á vafaatvik aftur, til dæmis meint olnbogaskot Bookers. Slíkur búnaður er ekki á Hlíðarenda. „Það er skítlélegt að hér sé ekki myndbandsbúnaður. Hér er ömurleg aðstaða og hörmulegt að spila,“ bætti Viðar Örn við.

Mynd: Daníel Þór Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.