Körfubolti: Valur vann fyrsta leikinn í einvíginu

Deildarmeistarar Vals unnu fyrsta leikinn í einvígi þeirra og Hattar í átta liða úrslitum Íslandsmót karla í körfuknattleik, 94-75, en leikið var á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Höttur var lengst af yfir í fyrsta leikhluta en það breyttist síðustu einu og hálfu mínútuna þegar Valur skoraði sjö stig í röð og var því yfir 23-19 að honum loknum.

Höttur hélt áfram í við heimaliðið fram í miðjan annan leikhluta. Valur skoraði þá átta stig í röð, breytti stöðunni úr 27-29 í 35-29. Staðan í hálfleik var síðan 45-37.

Höttur skoraði fyrstu tvær körfurnar í öðrum leikhluta. Valur skoraði þá átta stig í röð og komst í 52-41. Höttur kom muninum niður í fjögur stig, 57-53 en Valur skoraði þá fjögur stig í röð og komst í átta stiga forskot. Heimamenn héldu áfram og voru 67-55 eftir þriðja leikhluta.

Þarna var Valur kominn með nokkuð góð tök á leiknum. Liðið bætti áfram í forustuna og komst nærri 20 stigunum en aldrei yfir þau. Lokamunurinn var sá mesti, 94-75.

Höttur hafði fyrr í vetur tapað báðum leikjum sínum gegn Val. Báðir höfðu þó spilast þannig að Höttur hafði átt góðan fyrri hálfleik en Valur lokað vörn sinni í seinni hálfleik. Líkt og þá bætti Valur heldur í kraftinn í seinni hálfleik í gær.

Ólíkt mörgum leikjum í vetur gekk Hetti illa í þriggja stiga skotum. Nýting liðsins í leiknum utan línunnar var 29%, þar af 0/5 hjá Deontay Buskey, sem þó var stigahæstur með 18 stig og 3/11 hjá Obie Trotter. Adam Eiður Ásgeirsson setti niður öll fjögur þriggja stiga skot sín, en lenti í villuvandræðum og spilaði því aðeins rúmar 19 mínútur.

Liðin mætast aftur á Egilsstöðum klukkan 19:00 á sunnudagskvöld.

Mynd: Daníel Þór Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.