Skip to main content

Körfubolti: Viðar Örn leikgreinir mótherja Íslands á EM

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. ágú 2025 10:35Uppfært 28. ágú 2025 10:42

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er annar aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins í körfuknattleik sem leikur sinn fyrsta leik á Evrópumótinu í dag. Hann segir liðið vel undirbúið en hans hlutverk hefur mest verið að greina liðin sem Ísland mætir.


„Mótið leggst vel í okkur. Við erum fullir eftirvæntingar og fín stemming í hópnum. Við teljum okkur hafa náð að undirbúa okkur vel,“ segir Viðar Örn. Hann hefur að mestu verið að heiman undanfarinn mánuð en undirbúningur liðsins byrjaði um 20. júlí.

Stefna á fyrsta sigurinn á EM


Ísland byrjar á leik gegn Ísrael í hádeginu í dag, svo gegn Belgíu á laugardag, Póllandi á sunnudag, Slóveníu á þriðjudag og loks Frakklandi á fimmtudag. Riðillinn er leikinn í Katowice í Póllandi en fjögur efstu liðin fara áfram í 16 liða úrslit.

„Við ætlum okkur að sækja sigur eða sigra að þessu sinni. Þegar þú ert Ísland þá snýst þetta um að leggja allt í þetta og sjá hvað það gefur okkur. Ísland hefur ekki unnið leik á EuroBasket enn, liðið spilaði á mótinu bæði 2015 og 2017 en þetta er annað lið núna.“

Kom inn í þjálfarateymið sumarið 2024


Kanadamaðurinn Craig Pedersen er aðalþjálfari Íslands, líkt og hann hefur verið frá árinu 2014. Hans áhersla er á sóknarleikinn. Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar, er hinn aðstoðarþjálfarinn og sérhæfir sig í varnarleiknum.

Viðar Örn er svo þriðji maðurinn í teyminu en hann kom inn í það í júní í fyrra. Hann er aftur annar tveggja Austfirðinga í starfsliðinu, hinn er sjúkraþjálfarinn Valdimar Halldórsson. „Mitt verkefni er að koma með punkta í bæði vörn og sókn og leikgreina mótherjana,“ segir Viðar sem var að skoða einstaklinga í belgíska liðinu þegar Austurfrétt ræddi við hann í gærkvöldi.

NBA stjörnurnar manneskjur eins og við hin


Búið er að skoða ísraelska liðið. „Þeir eru með nokkur stór nöfn og öfluga leikmenn. Þeirra stærstur er Roman Sorkin sem spilar með Portland í NBA-deildinni og er þar með 18 stig að meðaltali í leik.“

Flestra augu eru hins vegar á Slóveníu, með NBA stjörnuna Luka Doncic og Frakklandi, þótt þess stærsta stjarna, Victor Wembanyama, sé ekki með. „Frakkar eiga 20 leikmenn í NBA en jafnvel þótt enginn þeirra sé með þá er þetta samt lið sem getur unnið mótið.

Við höfum alveg spilað gegn NBA leikmönnum en þótt þetta séu stærri nöfn og mögulega betri þá eru þeir ekkert merkilegri að öðru leyti. Það verður gaman að spila gegn Doncic en hann er bara manneskja eins og við hin.

Við eigum líka okkar leikmenn. Martin Hermannsson spilar með Alba Berlin á hæsta stigi í Evrópu. Elvar Már Friðriksson og Tryggvi Hlinason eru líka meðal þeirra bestu. Þess utan höfum við góða liðsmenn og liðseiningu.“

Viðar Örn segir að þátttaka hans í landsliðsverkefnum skili fyrst og fremst reynslu. „Þetta er gríðarleg reynsla og þekking sem fæst af því að vinna með okkar fremstu íþróttamönnum á hæsta stigi körfubolta í Evrópu. Það er mikill lærdómur þótt þetta þýði að ég sé minna í vinnunni minni í menntaskólanum og hjá Hetti.“

Mynd: Daníel Cekic