Kolefnissporið 113 tonn á hvern íbúa Austurlands

Kolefnisspor hvers íbúa Austurlands er 113 tonn á ári, miðað við nýja úttekt sem kynnt var í gær. Þessi háa tala á sér ýmsar skýringar en að sama skapi er ýmislegt hægt að gera til að lækka hana.

Það er fyrirtækið Environice sem unnið hefur greininguna á vegum Eyglóar, samstarfsverkefnis um hringrásarhagkerfi, orkuskipti og nýsköpun sem hýst er hjá Austurbrú. Stefán Gíslason frá Environice kynnti niðurstöðurnar á fundi á Reyðarfirði í gær.

Kolefnisspor er skilgreind sem nettólosun gróðurhúsalofttegunda frá ákveðinni athöfn. Það byggir á útreikningi á losun sjö lofttegunda sem stuðla að gróðurhúsaáhrifum. Byggt er að mestu á opinberum gögnum frá árinu 2022 og alþjóðlegum reikningsstöðum.

Byggt er á losun sem á sér stað vegna athafna á Austurlandi. Byggir það einkum á mengun frá samgöngum, úrgangi, iðnaði, landbúnaði og landnotkun sem og annarri staðbundinni orkunotkun. Þannig er reiknað kolefnisspor frá framleiðslu þess rafmagns sem notað er á svæðinu. Útreikningur á losun ákveðinnar vöru er reiknaður þar sem hún er framleidd.

Á vegum Eyglóar hafa verið teknar saman tölur um allt eldsneyti sem flutt er inn til Austurlands og selt þar. Stefán sagði slíkar tölur ekki hafa verið teknar saman annars staðar og þær séu því merkilegar. Á móti þýði sala á eldsneyti ekki að því sé brennt innan sama landssvæðis.

Hærra í dreifbýli en þéttbýli


Heildarlosun Austurlands er tæp 1,23 milljónir kolefnisígildistonna eða 113 tonn á íbúa. Environice hefur áður reiknað sambærilegar tölur fyrir fjóra aðra landshluta og er að reikna þann sjötta. Út frá því má sjá að landsmeðaltalið er 33,1 tonn á íbúa eða alls 12,47 milljónir tonna. Það á sér þó þá eðlilegu skýringu að kolefnissporið er hærra í dreifðari byggðum en þéttbýli. „Það er hvorki sanngjarnt að segja að Austurland standi sig vel eða illa.“

Álver Alcoa Fjarðaáls á stærstan hlut í losun Austurlands, rúm 532 þúsund tonn eða 43,3%. Landnotkun á 33,4%, útgerð fiskiskipa 8%, olíubrennsla fiskimjölsverksmiðja 3,9%, rafmangsnotkun álversins 3,4%, búfénaður 2,8%, vegasamgöngur 2,7%, kælimiðlar 0,97% og urðun úrgangs 0,65%.

Stefán sagði að þegar horft væri á þessar tölur væru mikilvægt að sjá hvar hægt væri að grípa til aðgerða. Þannig sé lítið hægt að gera í losun álversins, tæknin við álframleiðslu kalli einfaldlega á þessa losun.

Endurheimt votlendis skilvirkasta leiðin


Hann sagði talsverð tækifæri felast í landnotkuninni, en þar er aðallega um að ræða losun frá framræstu votlendi. Kolefnisspor landnotkunar er 38 tonn á íbúa á Austurland, samanborið við rúmlega eitt tonn á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins, enda færri íbúar á stærra svæði eystra. Landsmeðaltalið er 22 tonn, 20 tonn á hvern íbúa Norðurlands eystra, 97 á Vesturlandi, 101 á Suðurlandi og 218 á Norðurlandi vestra. „Prófið að horfa eftir skurðum þegar þið keyrði Skagafjörðinn eða Suðurlandið. Landið er allt suðurgrafið og aðeins brot af því ræktarland.“

Endurheimt votlendi hefur verið umdeild aðgerð, meðal annars því gögn um losunina eru enn ónákvæm. Stefán sagði að þótt veruleg skekkja væri í gögnunum, til dæmis í óvissunni um hve stór hluti framræsts lands væri ræktarland sem skili einhverri bindingu, þá væri losunin samt það mikil að endurheimtin væri skilvirkasta leiðin. Þá hefur verið gagnrýnt að notaðir hafi verið erlendir staðlar við útreikninga sem eigi illa við um land eins og Ísland þar sem jörð sé frosin stóran hluta ársins sem dragi úr losuninni. Við útreikninga Environice var notast við staðla frá Landbúnaðarháskóla Íslands frá árinu 2016, sem eru lægri en Evrópustaðar. Að sama skapi væri miður hve rannsóknir hérlendir væru takmarkaðar.

Þá sagði hann að endurheimtin virtist skila meiri bindingu en skógrækt en benti um leið á að málið væri flóknara en í sviphendingu ætti að moka ofan í alla skurði. „Það er engin töfralausn til. Það verður að fara yfir það innan svæðis hvað hentar best í landnotkuninni.“

Hvað er hægt að gera?


En það sem Stefán lagði mesta áherslu á að hægt væri að gera eitthvað við er svokölluð samfélagleg losun, svo sem almennar samgöngur, aðrir atvinnuvegir og úrgangur. „Stærðin skiptir ekki alltaf máli heldur hvað hægt er að gera til að draga úr losun.“ Hann hrósaði austfirskum útgerðum fyrir árangur við að draga úr sínu kolefnisspori um leið og hann lýsti þeirri staðreynd að fiskimjölsverksmiðjur notist við olíur sem „mannlegu klúðri.“

Samfélagslosunin á Austurlandi er 26,3 tonn á íbúa en sex tonn að meðaltali á landinu. Fiskveiðarnar vega þar þyngst, en einnig fiskimjölsbræðslurnar og vegasamgöngur, sem er eðlilegt í dreifbýli. Hann nefndi áframhaldandi rafbílavæðingu sem eina lausnina en einnig var mikið rætt um meðhöndlun úrgangs, hvort rétt væri að hætta allri urðun.

Spurningum um hagkvæmi þess að flytja úrgang erlendis til brennslu svaraði hann á þá leið að ávinningurinn væri umtalsverður því erlendis nýttist úrgangurinn til að búa til orku sem annars væri fengin með olíu eða kolum. Þrátt fyrir olíulosun í flutningunum yrði kolefnisspor aðgerðarinnar aldrei nema 1/8 af þeirri losun sem brennslan kemur í staðinn fyrir.

Um mögulegar skekkjur í útreikningunum yfirhöfuð lagði Stefán áherslu á að mikilvægi væri þess að geta rakið aðferðafræðina því þannig yrði auðveldara að endurútreikna kolefnissporið eftir því sem ný þekking komi fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.