Kolmunnaveiðiskip sigldu líklega fram á loðnu

Tvö skip á vegum Hafrannsóknastofnunar eru í dag á leið til loðnuleitar suðaustur af landinu. Kolmunnaveiðiskip sigldu líklega fram á loðnutorfur þar í gær. Vonast er til að nánari upplýsingar verði ljósar fyrir helgi. Sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun segir að mögulega þurfi að endurmeta fyrirkomulag loðnuleitar til framtíðar verði loðna staðfest á þessum slóðum.

„Við sömdum við útgerðirnar um að sigla eftir ákveðnum línum á leiðinni til og frá kolmunnamiðunum í von um að þær rækjust á eitthvað. Það bar árangur strax á fyrsta degi. Svanur RE varð var við torfur og fylgdi þeim eftir.

Hákon EA og Hoffell SU fóru bæði norðan og sunnan við slóð Svans og urðu líka vör við torfur,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Fiskurinn fannst suðaustur af landinu, miðja vegi milli Rósagarðsins og Rauða torgsins.

Hann segir dreifingu fiskitorfanna liggja nokkuð ljósar fyrir. Minna sé vitað um magnið auk þess sem ekki hefur verið endanlega staðfest um hvort loðnu sé að ræða. Hákon reyndi að taka sýni seint í gærkvöldi en var ekki með rétt veiðarfæri um borð auk þess sem veður var óhagstætt. Guðmundur segir þó allar líkur að um sé að ræða loðnu frekar en síld.

Gætu þurft að endurskoða leitina í framtíðinni


Tvö skip fara til rannsókna í dag. Bjarni Sæmundsson hefur verið í hafrannsóknum austur af landinu. Hann á að ljúka við Krossanesmið eftir hádegið og fer svo beint á loðnusvæðið. Polar Ammassak, skip dótturfélags Síldarvinnslunnar, hefur verið í loðnurannsóknum norður af landinu. Hann var staddur norður af Horni í gærkvöldi en setti þá stefnuna beint austur fyrir land. Guðmundur reiknar með að 2-3 daga þurfi í leitina þannig góð mynd verði komin á stöðuna fyrir helgi.

Talsverðir hagsmunir eru í húfi því til þessa hefur ekki fundist nóg af loðnu þannig gefin verði út upphafskvóti fyrir vertíðina en í venjulegu ári væru veiðar vel á veg komnar. Loðnan sem kom í ljós í gærkvöldi gæti gefið tilefni til að endurskoða leitarsvæði í framtíðinni.

„Þetta kemur vissulega á óvart. Við höfðum leitað langt austur úr, sérstaklega í leiðangrinum í janúar en líka núna. Ef þetta er loðna þá fer hún langa leið upp að landinu. Þá höfum við ekki farið nógu austarlega. Þá þurfum við eitthvað að endurskoða leitina, ef loðnan getur farið þetta langt. Við teljum ómögulegt að hún hafi farið framhjá okkur miðað við leitarsvæðin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.