Skip to main content

Komið að talsverðu viðhaldi í Fáskrúðsfjarðargöngum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. jún 2023 12:45Uppfært 22. jún 2023 12:47

Þörf er komin á töluvert viðhald í Fáskrúðsfjarðargöngum, samkvæmt nýrri úttekt Vegagerðarinnar. Lítið þarf hins vegar að gera í Norðfjarðargöngum.


Í lok skýrslu starfshóps Vegagerðarinnar um jarðagangaáætlun til 30 ára, sem birt var í síðustu viku, er farið yfir þörf á viðhaldi í jarðgöngum á Íslandi.

Þar segir að víða sé kominn tími á talsverðar framkvæmdir til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til jarðganga í dag, svo sem að þétta bil milli neyðarstöðva og bæta lýsingu. Þá er í einhverjum tilfellum hætt að framleiða íhluti í búnað sem í dag er notaður þannig skipta þarf honum út. Árlegur viðhaldskostnaður er áætlaður 650 milljónir króna, til viðbótar við hefðbundinn rekstrarkostnað.

Fáskrúðsfjarðargöng, sem opnuð voru árið 2005, eru meðal þeirra ganga þar sem mestrar endurnýjunar er þörf. Samkvæmt svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar þarf þar að setja upp kantlýsingu, steypa axlir og endurnýja ýmsan búnað.

Áætlaður kostnaður við það er 1,2 milljarður króna. Undirbúningur er hafinn en engin tímaáætlun komin um framkvæmdir.

Að sama skapi eru Norðfjarðargöng, sem opnuð voru 2017, ódýrari á fóðrum, viðhaldskostnaður þar er metinn 140 milljónir króna. Mesta vinnu þarf í Héðinsfjarðargöngum, sem opnuðu 2010, eða fyrir um tvo milljarða króna.