Skip to main content

„Kommunum greinilega að fjölga í Neskaupstað“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jan 2024 10:54Uppfært 30. jan 2024 11:58

Hafi einhver haldið að dagar Kommablótsins í Neskaupstað væru taldir verður sá hinn sami að éta það snarlega ofan í sig. Algjör metsala er á þetta þekkta og sérstaka blót sem fram fer um helgina í 58. skiptið.

Það staðfestir Jóhanna Smáradóttir, sem situr í blótsnefnd þetta árið, en viðburðurinn fer fram í íþróttahúsi bæjarins á laugardagskvöldi kemur. Þegar eru 640 miðar seldir og Jóhanna á jafnvel von á að einhverjir fleiri miðar seljist í viðbót þó tæknilega sé miðasölunni lokið.

„Þessi aðsókn er með ólíkindum góð og svo góð reyndar að við lentum í vandræðum því við létum bara prenta 600 miða og urðum að hafa snör handtök að láta prenta fleiri þegar til kom. Við redduðum því en 600 miðar áttu að duga og gott betur því í fyrra seldust um 550 miðar. Það fór þó fjarri þegar til kom og þetta verður fjölmennasta kommablótið hér um slóðir. Ég reyndar var að gantast með það við pabba [Smára Geirsson] sem hefur verið í þessari nefnd í mörg ár að okkar nefnd dugði ein tilraun til að ná þessum vinsældum. En það er vissulega útlit fyrir að kommunum sé að fjölga í Neskaupstað,“ segir hún og hlær.

Undirbúningur allur hefur gengið frábærlega og nánast allt að vera tilbúið nú þegar þó enn séu nokkrir dagar til stefnu. Hún segir auðvelt að finna eftirvæntinguna hjá mörgum í bænum enda útlit fyrir að stór hluti íbúa Neskaupstaðar taki sér sæti í íþróttahúsinu á laugardagskvöld.