Skip to main content

Komu slösuðum manni til hjálpar í Loðmundarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. sep 2023 16:10Uppfært 04. sep 2023 16:12

Ósk um aðstoð til handa slösuðum ferðamanni í Loðmundarfirði barst björgunarsveitinni Sveinunga á Borgarfirði eystra síðdegis í gær. Vel gekk að sækja manninn og koma honum undir læknishendur.

Það var um klukkan fimm á sunnudaginn var sem björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði eystra fékk boð um mann sem hafði slasast á höfði í Loðmundarfirði og aðstoðar óskað sem fyrst enda virtust meiðslin alvarleg. Í firðinum er farsímasamband lítið sem ekkert og var nánast einungis samband við aðgerðastöð Landsbjargar gegnum talstöð í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í firðinum.

Björgunarsveitarmenn ásamt lækni fóru strax af stað en á leiðinni fékkst vitneskja gegnum talstöðvarsamband að meiðsl mannsins væru ekki jafn alvarleg og virtist í fyrstu. Björgunarsveitarmenn voru komnir á staðinn með bíl rúmlega klukkustund síðar en þá hafði tekist að koma manninum í skjól við skálann og vel hlúð að manninum.

Að sögn Bergvins Snæs Andréssonar hjá björgunarsveit Sveinunga gekk vel að komast í eyðifjörðinn en þangað tekur um klukkustund að komast með bíl eftir slóðum þegar vel árar.

„Við bjuggum vel um manninn og fluttum hann til Borgarfjarðar sem tók um tæplega eina og hálfa klukkustund . Á Borgarfirði beið okkar þá sjúkrabíll sem flutti manninn svo undir læknishendur til Egilsstaða en þangað er um klukkustundar akstur.“

Að sögn Bergvins eru útköll í Loðmundarfjörð ekki algeng en aldrei sé hægt að vita hvaðan köllin koma hverju sinni. Í tilviki sem þessu sé það metið í samvinnu við aðsgerðastöð hvað gera þurfi en í Loðmundarfjörð er um hálftíma sigling frá Seyðisfirði ef gott er í sjóinn og það eftir atvikum vænlegri leið til bjargar.

Skálar Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Loðmundarfirði. Þangað þurfti að sækja slasaðan mann síðdegis á sunnudag.