Kona setti Menntaskólann á Egilsstöðum fyrsta sinni

Tímamót urðu fyrr í vikunni þegar Menntaskólinn á Egilsstöðum (ME) var settur og það af hálfu konu en það aldrei gerst áður í 45 ára sögu skólans.

Þar var um að ræða staðgengil skólameistara, Jóney Jónsdóttur, en hún lagði í setningarræðu sinni áherslu á gildi skólans; gleði, virðingu og jafnrétti og lýsti mikilli innri gleðitilfinningu hvert haust þegar skólinn fylltist af lífi á nýjan leik.

Aðeins dregur úr nemendafjölda dagskólans þetta árið en skráðir nemendur þar eru þetta skólaár 190 talsins og þar af 67 nýnemar. Fjöldinn fyrir ári síðan var rúmlega 200 talsins. Einir 80 nemendur búa um sig í heimavist skólans og vistin fullsetin. Mun fleiri nýta sér þó fjarnámskennslu menntaskólans en þar eru skráðir 280 einstaklingar.

Hársnyrtinám aftur á dagskrá í VA

Fjölgun nemenda er merkjanleg milli ára í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) í Neskaupstað að sögn Birgis Jónssonar, aðstoðarskólameistara, en kennsla þar hófst formlega á þriðjudaginn var.

Aðspurður um hvort plássleysi í iðn- og verknám annars staðar í landinu þar sem umsóknir hafa víða verið mun fleiri en skólarnir ráða við hafi orðið til þess að leitað hafi verið austur segir Birgir þess vissulega orðið vart en þó í minna mæli en búist var við.

„Það er fjölgun hjá okkur og orðið fullt og rúmlega það í nokkrar greinar. Það er sérstaklega ánægjulegt að þetta árið bjóðum við aftur upp á hársnyrtinám en það eru liðin ein fjögur ár síðan síðast fengust nemendur í það nám. Það vita allir austanlands hversu mjög hárgreiðslustofum hefur fækkað drjúgt undanfarin ár þannig að það er góð þróun að fólk sýni því námi áhuga á ný. Við höfum orðið vör við áhuga annars staðar frá en það minna en við bjuggumst við með tilliti til plássleysis annars staðar. En auðvitað jákvætt að sjá þennan aukna áhuga á iðn- og verknámi í landinu.“

Staðgengill skólameistara ME, Jóney Jónsdóttir, flytur setningarræðu sína en það í fyrsta sinn sem kona setur skólann þann. Mynd ME

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.