Skip to main content

Konur flytja af Austurlandi til að fara í nám og koma ekki aftur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. ágú 2023 18:24Uppfært 31. ágú 2023 18:33

Atvinnutækifæri kvenna virðast mun lakari en meðal karla á Austurlandi. Þetta veldur því að konur sem flytjast burtu í nám snúa ekki til baka.


Þetta eru lykilniðurstöður rannsóknar sem Austurbrú gerði í fyrra og opinberaðar voru nú í sumar. Með rannsókninni var reynt að greina hvers vegnar ungar konur flytjast frá Austurlandi.

Könnunin beindist sérstaklega á konum á aldrinum 21-40 ára víða af Austurlandi sem flust höfðu til Akureyrar eða höfuðborgarsvæðisins. Alls voru þetta um 400 konur, hringt var í helming þeirra en hinn helmingurinn svaraði spurningalista.

Megin niðurstöðurnar eru að meirihluti þeirra kvenna sem flutt hafa frá Austurlandi hafa ekki komið aftur til baka. Hversu sterk tengsl konurnar höfðu við þann stað sem þær fluttu frá réði þar langmestu um það hve líklegt var að þær kæmu til baka.

Annað sem hafði áhrif var hversu snemma þær tengdust viðkomandi stað. Með öðrum orðum; var um djúp tengsl að ræða frá fæðingu eða unga aldri eða kom tengingin við síðar á lífsleiðinni. Þar var um huglægt mat hverrar og einnar konu að ræða, en sterk tengsl við tiltekinn stað þýðir mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk.

Flestar fluttu vegna náms


Þá flutti meirihluti kvennanna frá Austurlandi til að hefja nám annars staðar og ílengdust þar. Um helmingur allra brottfluttra kvenna á rannsóknartímabilinu fluttu til að stunda nám sem ekki er í boði á Austurlandi. Nánar tiltekið 53 prósent kvenna úr Múlaþingi og 48 prósent kvenna frá Fjarðabyggð. Niðurstöður könnunarinnar voru svipaðar og í áþekkri könnun sem gerð var 2016.

Fram kom að konurnar töldu mikinn mun á atvinnutækifærum kvenna og karla á Austurlandi, þar sem tækifæri karla væru mun betri. „Þar voru konurnar sem svöruðu mestmegnis að miða við sína menntun. Það er að segja að það var lítið úrval starfa við þeirra hæfi og miðað við þeirra menntun.

Það er kannski vilji til að snúa aftur á stað sem flutt var frá, en starfstækifærin eru einfaldlega ekki til staðar á þeim stað og þá hafa launakjör eitthvað með þetta að gera líka þó það hafi ekki verið skoðað neitt sérstaklega,“ segir Erna Rakel Baldvinsdóttir, önnur þeirra tveggja sem leiddu rannsóknina fyrir hönd Austurbrúar.

Konurnar virtust að sama skapi nokkuð ánægðar með þjónustuna á svæðinu, þannig sögðu 48% kvennanna að þjónusta við barnafjölskyldur í Fjarðabyggð væri mikil og 38% þeirra sem komu frá Múlaþingi sögðu afþreyingu, menningu og lífsgæði vera góð. Á móti kom fram gagnrýni á almenningssamgöngur og skort á íbúðahúsnæði.

Engar einfaldar lausnir


Af þeim konum sem þátt tóku í könnuninni úr Múlaþingi töldu aðeins 10% þeirra miklar líkur á að snúa aftur austur á land í framtíðinni. Það hlutfall var aðeins hærra í Fjarðabyggð, 13%. Til að byggð dafni þarf kynjahlutfall íbúa að vera sem jafnast og aldursdreifing þannig að samfélagið endurnýi sig. Á Austurlandi voru karlar 53% íbúa en konur 47% í fyrra. Það er þó misjafnt eftir byggðarlögum, í Fjarðabyggð er kynjamunurinn 20% og 8% í Múlaþingi, 74% í Fljótsdal en nánast jafnt á Vopnafirði. Í Reykjavík er munurinn 5%.

Erna Rakel viðurkennir að það séu engar einfaldar lausnir í þessu sambandi enda þótt það hafi ekki verið tilgangur rannsóknarinnar að leita þeirra sérstaklega. „Það myndi eflaust breyta stöðunni töluvert ef unga fólkið þyrfti ekki að leita langt annað í æðra nám. En þá þurfa einnig að vera til störf við hæfi sem er önnur stór breyta sem hér hefur áhrif. Það segir sig dálítið sjálft að ef fólk fær ekki störf í því fagi sem það hefur eytt árum í að nema þá leitar það annað. Það þarf ýmislegt að breytast til að stöðva þessa þróun og tekur það eflaust langan tíma.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Mynd: Austurbrú