Kortlögðu Helgustaðarnámu í þrívídd

Allir sem í hafa komið vita að það er æði þröngt um í Helgustaðarnámu í Reyðarfirði sé hugmyndin að fara og skoða og ófáir fengið þar óþægileg höfuðhögg gegnum tíðina. Nú er ekki lengur þörf á að óttast högg á haus eða að skríða um síblautan botninn á fjórum fótum til að vitna þessa merku gömlu námu í allri sinni dýrð.

Þakkir fyrir það eiga annars vegar Lára Björnsdóttir, hjá Umhverfisstofnun, og hins vegar Hafþór Snjólfur Helgason, margmiðlunarfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Lára fyrir að leita aðstoðar til að kortleggja þessa merku námu í öryggisskyni og Hafþór fyrir að eyða mörgum klukkustundum í að skanna þrengslin í námunni með þeim hætti að þau má nú sjá fram og aftur í smáatriðum í þrívídd. Verkefni sem Hafþór segir mest krefjandi þrívíddarskönnun sem hann hafi komið nálægð sökum þrengsla, myrkurs, bleyti og kulda.

Ástæður þess að Umhverfisstofnun vildi láta skanna námuna með nýjustu tækni eru allnokkrar að sögn Láru.

„Þessi fornfræga náma er á forræði okkar hjá Umhverfisstofnun og hugmyndin með skönnuninni er að fá það glögga mynd af henni að hægt sé að fylgjast grannt með niðurbroti innan í henni en ekki síður út frá öryggissjónarmiði en við gerum slíkar öryggisúttektir á nokkurra ára fresti. Náman er auðvitað opin og brottnám kristalla úr berginu ekki óþekkt fyrirbæri svo þetta hjálpar þar líka. Svo er reyndar annað sem hér skiptir máli og varðar aðgengi almennings. Aðgengið er erfitt og getur jafnvel verið hættulegt og fyrir hreyfihamlaða til dæmis er næsta vonlaust að skoða námuna í eigin persónu. Það er nokkuð sem við höfum verið að kortleggja almennt hvernig aðgengi hreyfihamlaðra er á svæðum sem við sjáum um og Helgustaðanáman eitt af þeim þar sem aðgengi þeirra er næsta ekkert. Þannig að þeir einstaklingar nú eða ferðamenn geta nú skoðað námuna í þaula án þess að leggja sig í hættu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.