Skip to main content

Kosið um formann hjá AFLi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2025 10:31Uppfært 22. apr 2025 10:57

Tveir einstaklingar hafa skilað inn gildum framboðum til formanns AFLs starfsgreinafélags. Kosið verður á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á Egilsstöðum á laugardag.


Það er Sverrir Kristján Einarsson, formaður Iðnaðarmannadeildar AFLs, sem býður sig fram gegn sitjandi formanni Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, en hún er í framboði samkvæmt tillögu uppstillinganefndar.

Hjördís Þóra hefur verið formaður AFLs frá því félagið varð til við sameiningu verkalýðsfélaga allt frá Langanesbyggð suður á Hornafjörð árið 2007. Hún var fyrst kjörin formaður verkalýðsfélagsins Jökuls á Hornafirði árið 1993 og varð síðan formaður Vökuls, sameinaðs félags frá Stöðvarfirði til Hornafjarðar, árið 1999. Hún er jafnframt fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands.

Sverrir Kristján er uppalinn Eskfirðingur sem hefur stafað innan AFLs í hartnær 20 ár. Hann byrjaði í starfi ASÍ UNG en kom síðan inn í stjórn AFLs árið 2011. Hann varð formaður Iðnaðarmannadeildarinnar fyrir ári. Í tilkynningu AFLs segir að framboðs Sverris hafi borist í síðustu viku ásamt meðmælendalista. Kjörstjórn hafi yfirfarið listann og staðfest gildi hans.

Allir fullgildir og greiðandi félagsmenn eiga atkvæðisrétt á fundinum sem haldinn verður á Berjaya hóteli á Egilsstöðum á laugardag. Þetta er í fyrsta sinn í sögu AFLs sem kosið verður milli formannsefna.