KPMG telur veiðigjöld á fyrirtæki í Fjarðabyggð hækka um 1,3 milljarða króna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. júl 2025 17:50 • Uppfært 10. júl 2025 17:51
Sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð eru meðal þeirra sem borga stærsta hluta aukningar veiðigjalda, miðað við fyrirliggjandi tillögur atvinnuvegaráðherra. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga telja enn vanta upp á að nánari grein sé gerð fyrir ólíkum áhrifum breytinganna á einstök sveitarfélög.
Samkvæmt greiningu sem KPMG vann fyrir samtökin hækka veiðigjöld á fyrirtæki í Fjarðabyggð um 1,3 milljarða króna. Þau hátt í tvöfaldast en fyrirtækin greiddu 1,8 milljarða í fyrra.
Miðað við álögur á fyrirtæki í einstökum sveitarfélögum er Fjarðabyggð eitt af þeim sveitarfélögum sem bera uppi áætlaða tekjuaukningu ríkissjóðs upp á 7,9 milljarða króna. Mest kemur frá Vestmannaeyjum og Reykjavík, en þar á eftir koma Fjarðabyggð og Akureyri. Samkvæmt samantektinni færu veiðigjöldin í 80% af hagnaði hjá sjö útgerðum í Fjarðabyggð.
Vopnafjörður meðal þeirra sveitarfélaga sem treysta mest á sjávarútveg
Reiknað er út frá því hvar fyrirtækin eru með lögheimili. Reikna má með að gjöld Brims vegi þungt í Reykjavík, þar sem þau eru talin fram, þrátt fyrir að stór hluti starfseminnar sé á Vopnafirði.
Vopnafjörður er eitt af þeim sveitarfélögum sem sérstaklega eru tekin fyrir í greiningu KPMG sem dæmi um mikilvægi sjávarútvegs. 15% fasteignagjalda sveitarfélagsins koma beint frá Brimi. Þar eru 105 störf við veiðar og vinnslu og áætlað að sjávarútvegur standi undir 36,5% af launagreiðslum í sveitarfélaginu.
Veiðigjöld á fyrirtæki með lögheimili á Vopnafirði aukast aðeins um þrjár milljónir, en KPMG reiknar hækkunina um 500 milljónir þegar hlutur Brims hefur verið reiknaður út þar. Minnt er á að fyrirtækið hafi tvö ár í röð frestað framkvæmdum sem metnar eru á 8-12 milljarða króna á staðnum vegna loðnubrests.
Umræða um breytingu veiðigjalds hefur setið í Alþingi síðustu vikur þar sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi málþófi. Bæði stjórn og stjórnarandstaða saka hvor aðra um óbilgirni og skort á samningsvilja.
Sveitarfélögin vilja hækkun í áföngum
Í ályktun sem stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, þar sem Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á sæti, samþykkti á fundi sínum í síðustu viku, eru Alþingi og ríkisstjórn hvött til að huga að hagsmunum almennings í þeim sveitarfélögum. Hækkunin snúi ekki að nokkrum heldur hundruðum fyrirtækja í sjávarútvegi. Varað er við að hún leiði til enn frekari samþjöppunar í greininni og að fiskvinnsla leggist af.
Þess vegna sé nauðsynlegt að meta bæði bein og óbein áhrif frumvarpsins á ýmsa þætti í sveitarfélögum sem treysti á sjávarútveg, svo sem útsvarstekjur, tekjur hafna og stoðþjónustu. Kallað er eftir að hækkunin verði innleidd í þrepum.
Samtökin fagna á móti breytingum sem urðu frá fyrstu drögum frumvarpsins þar sem frítekjumark var hækkað í 50 milljónir, en það á að nýtast smærri útgerðum. Þau gagnrýna hins vegar „annmarka á verðlagningu á ákveðnar tegundir“ en mikil hækkun er á makríl sem byggir á verði frá Noregi, þar sem náttúrulegar forsendur séu allt aðrar. Sú hækkun lendir aftur á uppsjávarútgerðum sem aftur er uppistaðan á Austfjörðum.