Kristín Dröfn Halldórsdóttir ráðin nýr framkvæmdastjóri hjá VÖK Baths

Kristín Dröfn Halldórsdóttir hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri VÖK Baths. Hún tekur við starfinu um áramótin.

Kristín Dröfn er uppalin á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá með mikla reynslu úr ferðaþjónustu. Hún vann lengi innan Icelandair-hótelanna, meðal annars sem verkefnastjóri.

Síðustu tvö ár hefur hún starfað hjá LS Retail sem hluti af alþjóðlegu söluteymi í Evrópu með hugbúnaðarlausnir fyrir hótel, heilsulindir og veitingastaði. Því hefur hún að miklu leyti sinnt frá Austurlandi.

Hún er með BA gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún tekur við starfinu af Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttir sem sinnt hefur því síðustu þrjú ár.

„Ég er afar spennt fyrir þessu starfi og sérstaklega ánægð að komast aftur á fullt í rekstur á sviði ferðaþjónustunnar sem er í beinum samskiptum við ferðamennina sjálfa. VÖK Baths er tvímælalaust mjög mikilvæg afþreying fyrir alla ferðaþjónustu á Austurlandi og mikil lífsgæði fyrir okkur sem búum hérna á svæðinu. Ég tek við góðu og spennandi búi og hlakka mjög til þeirra viðfangsefna sem eru framundan,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

„Það er okkur mikið gleðiefni að hafa fengið Kristínu í starfið og við erum þakklát fyrir þann áhuga sem starfinu var sýndur af mjög hæfu fólki. Áherslan verður á upplifun viðskiptavina okkar og við teljum Kristínu rétta manneskju á réttum stað sem framkvæmdastjóri VÖK Baths. Lengi má gott bæta.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka fráfarandi framkvæmdastjóra, Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur, kærlega fyrir hennar framlag til staðarins en hún skilar félaginu í góðri stöðu, ekki síst miðað við þá krefjandi tíma sem verið hafa í íslensku samfélagi og ferðaþjónustu síðustu 3 ár,“ segir Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður.

VÖK Baths hóf starfsemi í lok júlí 2019 og hefur starfsemin einkennst af miklum vexti en mjög krefjandi aðstæðum frá upphafi en Covid-faraldurinn hafði mikil áhrif árin 2020 og 21. VÖK Baths hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2022 og steinsteypuverðlaun Steinsteypufélagsins árið 2023. Fyrirtækið fagnar 5 ára rekstrarafmæli á næsta ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.