Kristín Embla glímukona valin Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar
Kristín Embla Guðjónsdóttir glímukona úr Val á Reyðarfirði var um helgina útnefnd Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar. Hún gat þó ekki tekið mót verðlaunum sínum sökum þess að á sama tíma var hún að taka við verðlaunum sem glímukona ársins hjá Glímusambandi Íslands. Það gerði systir hennar Elín Eik í staðinn.
Verðlaunin voru veitt á laugardaginn var með formlegri athöfn en auk þess að krýna þar Íþróttamanneskju ársins var jafnframt tlkynnt um Hvatningarverðlaun Fjarðabyggðar en þau verðlaun ætluð 13 til 15 ára ungmennum sem af hafa borið í íþróttagreinum sínum. Fjölmargar tilnefningar bárust í báðum flokkum og reyndist valið því erfitt dómnefnd sem í sitja fulltrúar í íþrótta- og tómstundaráðsnefndar Fjarðabyggðar.
Fjórir einstaklingar komu til greina sem Íþróttamanneskja ársins að þessu sinni en það voru auk Kristínar Emblu Sævar Emil Ragnarsson úr Austra, Geir Sigurbjörn Ómarsson úr Þrótti og Arek Jan Grzelak sem stundar sitt undir merkjum Leiknis. Var það mat dómnefndar að ekki aðeins væri Kristín Embla gull af manni innan vallar sem utan heldur og hefði hún á liðnu ári náð í sitt þriðja Freyjumen í glímuíþróttinni. Hún væri frábær fyrirmynd og mikil hvatning til ungra kvenna sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Ein átta ungmenni voru tilnefnd til hvatningarverðlauna ársins. Það voru þau Rakel Lilja Sigurðardóttir úr Val, Ármey Mirra Ólafsdóttir úr Leikni, Nanna María Ragnarsdóttir úr Austra, Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir úr Þrótti, Daníel Michal Grezegorzsson úr Val, Nenni Þór Guðmundsson úr Leikni, Davíð Orri Valgeirsson úr Austra og Heiðmar Óli Pálmason úr Þrótti. Heiðurinn féll svo í skaut þeirra Daniel Michal og Sóldísar Júlíu. Daniel tók í haust þátt í landsleikjum með U-15 ára landsliði Íslands í knattspyrnu og Sóldís náði frábærum árangri í blakinu með því að komast í meistaraflokk og landsliðið snemma í haust.