Kristján Þór: Bjarni Ben er sá eini í forustu íslenskra stjórnmála sem er lagður í einelti

kristjan_thor_julisson_04042013.jpg
Árásir á formann Sjálfstæðisflokksins eru leifar af heiftarlegri umræðu úr búsháhaldabyltingunni sem litlu hefur skilað íslensku þjóðfélagi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi berjast ekki aðeins við pólitíska andstæðinga til að koma sínum málum í gegn heldur einnig aðila innan eigin flokks.

Þetta kom fram í máli oddvita listans í kjördæminu, Kristjáns Þórs Júlíussonar, á opnum fundi sem flokkurinn stóð fyrir á Egilsstöðum í síðustu viku. Mikil umræða skapaðist þar um stöðu formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, sem Kristján Þór tók til varna fyrir.

„Ég ver skipstjórann með kjafti og klóm á meðan ég er um borð,“ sagði Kristján. Hann viðurkenndi þó að umræðan væri erfið og hvar sem frambjóðendur flokksins væri rætt um formanninn. 

„Ætlum við að láta DV stýra þjóðinni?“

Hann sagði að umræðan væri „óvægin“ og Bjarni væri tekinn fyrir í fjölmiðlum þar sem „skoðanamyndum í landinu“ færi að „stórum hluta fram.“

„Ætlum við að láta DV stýra þjóðinni? Bjarni Benediktsson er eini einstaklingurinn í forustu íslenskra stjórnmála sem er lagður í einelti. Er einhver að ræða um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hans vini: Finn Ingólfsson, Ólaf Ólafsson og Kögunarmálið?

Þetta eru leifar af umræðu úr búsáhaldabyltingunni sem engi hafa skilað nema tortryggni, heift, illsku og mannorðsmeiðingum. Við eigum að hætta því.“

Bjarni Ben er ekki í framboði hér

Hann sagði að í Norðausturkjördæmi væru menn „ekki að kjósa Bjarna Benediktsson.“ Menn yrðu að velja sér frambjóðendur eftir grundvallarlífsskoðunum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu þyrftu að kljást við einstaklinga innan þingflokksins jafnt sem pólitíska andstæðinga til að koma hagsmunamálum svæðisins á framfæri. 

„Það er aumingjaskapur ef menn fylkja sér ekki um þann Austfirðing sem er hér í framboði. Við þurfum ekki sendingar að sunnan til að hafa vit fyrir okkur.“

Enginn vill kannast að hafa unnið með Sjálfstæðisflokknum

Kristján Þór viðurkenndi að ekki blési byrlega fyrir flokkinn í skoðanakönnunum. Að baki því væru ýmsar ástæður.

„Meginástæðan er almenn vantrú á stjórnmálum.  Þar eiga allir flokkar sök á þótt umræðan beinist fyrst og fremst að Sjálfstæðisflokknum. Það er enginn sem vill kannast við að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það er heigulsháttur að mínu viti. Menn eiga að standa og falla með sínum verkum.“

Áframhaldandi vinstri stjórn leiðir til hörmunga

Hann kallaði fráfarandi ríkisstjórn stjórn „hinna glötuðu tækifæra,“ og varaði sterklega við hvers konar áframhaldi á henni. Atkvæði til Framsóknarflokksins gætu lengt líf hennar þar sem sagan sýndi að Framsókn leitaði „alltaf til vinstri.“

„ Framlenging á vinstri stjórn leiðir til mikilla hörmunga. Einu fjárlögin sem ríkisstjórnin hefur haldið eru fjárlög ársins 2009 sem hún vann ekki sjálf. Uppsöfnuð framúrkeyrsla síðustu ára nemur 160 milljörðum króna. Út af borðinu með allar vinstri áherslur sem hafa verið hér síðustu fjögur árin og allt sem bendir til þess að þær verði áfram.“

Áhuginn á skuldamálunum mestur í borginni

Kristján Þór sagði að forgangsmál Sjálfstæðismanna væru að verja heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntun. Hann sagði áherslur kjósenda mismunandi eftir búsetu og nefndi að frambjóðendurnir væru nýkomnir frá Borgarfirði. 

Þar hefði verið lítill áhugi á skuldamálum enda heimamenn lítinn þátt tekið í góðærinu. Skuldaumræðan væri „krafa úr þéttbýlinu, sérstaklega borginni.“

Enginn annar flokkur talar um skattalækkanir

Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt áherslu á skattalækkanir. „Enginn annar flokkur talar um bættan hag launamanna með skattalækkunum. Við höfum reiknað og leggjum ekki fram slagorðaflaum. Við teljum að ríkið hafi svigrúmið frekar en heimilin.

Kristján sagði að hægt væri að hefja þær aðgerðir strax á sumarþingi og tryggingagjald yrði þar fyrst tekið fyrir. „Við greiðum 17 milljarða á ári í atvinnuleysisbætur. Tryggingagjaldið kemur í veg fyrir að fyrirtæki ráði til sín starfsfólk.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.