Kröfum á hendur Múlaþingi og Fljótsdalshreppi vegna sorphirðuútboðs hafnað
Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað öllum kröfum UHA-umhverfisþjónustu sem taldi skilmála vegna sameiginlegs sorphirðuútboðs sveitarfélaganna Múlaþings og Fljótsdalshrepps vera ólögmæta
Dómur kærunefndarinnar féll um miðjan mánuðinn en upphaf málsins má rekja til kæru UHA-umhverfisþjónustu vegna þess sem fyrirtækið taldi ólögmæta útboðsskilmála. Þá fór fyrirtækið einnig fram á að útiloka bæri Íslenska gámafélagið frá útboðinu sem nær til sorpþjónustu fram til ársins 2028 en bæði fyrirtæki voru meðal þeirra fimm sem í það verk buðu snemma í vor.
Voru það ýmsar kröfur sveitarfélaganna til bjóðenda í verkið sem fóru fyrir brjóst eigenda UHA-umhverfisþjónustu. Þar á meðal að bjóðendur hefðu reynslu af sambærilegum verkum og jafnframt að viðkomandi gætu skilað inn meðmælum tveggja opinberra aðila fyrir áþekk verkefni gegnum tíðina. Þá krafðist UHA-umhverfisþjónusta þess að Íslenska gámafélaginu yrði meinað að bjóða í þjónustuna á grundvelli óeðlilegra tengsla við tilboðsgjafa en Íslenska gámafélagið hefur sinnt þessari þjónustu undanfarin ár.
Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að útboðsskilmálar væri með öllu eðlilegir og lögum samkvæmt og þar sem UHA-umhverfisþjónusta hefði ekki framreitt nein gögn né nánari upplýsingar um meint vanhæfi Íslenska gámafélagsins til að gera tilboð væri öllum þeirra kröfum hafnað.