Kæru gegn Gift vísað frá
Ríkislögreglustjóri hefur vísað frá kæru Vopnafjarðarhrepps vegna málefna Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga og Fjárfestingafélagsins Giftar sem lögð var fram í fyrra.
Í bréfi sem lögeglustjórinn sendi hreppsnefndinni segir að ekki þyki tilefni til að hefja lögreglurannsókn á málunum. Djúpavogshreppur stóð einnig að kæru gegn félögunum en bæði sveitarfélögin töpuðu fjármunum þegar Gift varð gjaldþrota eftir hrunið 2008.
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps ákvað á fundi sínum í seinustu viku að fá leiðbeinignar frá lögfræðideild Sambands íslenskra sveitarfélaga um næstu skref í málinu. Frestur til að kæra úrskurð Ríkislögreglustjóra er einn mánuður.