Kuml á Seyðisfirði

Kuml hefur komið í ljós við fornleifauppgröft á Seyðisfirði. Í því eru bein manneskju og hests en engir gripir enn.

Kumlið kom í ljós síðustu viku við rannsóknaruppgröft á því svæði sem fer undir nýja snjóflóðavarnagarða. Í þessari viku hefur verið unnið að því að grafa upp kumlið.

Kumlið fannst undir skriðu um 100 metra norðaustur af bæjarstæði Fjarðar, þar sem talið er að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi búið. Áður var talið að skriðan væri frá forsögulegum tíma en nú er frekar reiknað með að hún hafi fallið um miðja tólftu öld. Skriðusérfræðingur mun kanna hana nánar í næstu viku.

Ragnheiður Traustadóttir, stjórnandi uppgraftarins, segir að undir skriðunni sé mikið af mannvistarleifum frá miðöldum og landnámsöld. Auk þess að finna kumlið sé merkilegt að þarna hafi verið skriða sem sérfræðingar hafi ekki verið búnir að átta sig á.

Ekki hafa fundist aðrir gripir í kumlinu en rónaglar sem notaðir voru í báta. „Það hefur verið farið í kumlið og rótað ekki löngu eftir að það var sett þarna niður. Við sjáum að bein manneskjunnar eru ekki öll á sínum stað,“ segir Ragnheiður.

Talsvert af mannvistarleifum eru í elstu jarðlögunum þar í kring, til dæmis brot úr klébergi og perlur. „Við sjáum minjar koma í ljós sem gætu verið frá sama tíma og kumlið,“ segir hún. Ekki er því hægt að útiloka að fleiri grafir finnist á svæðinu.

Áætlað er að kumlið sé frá miðri tíundu öld, en nánari greining, sem og manneskjunni sjálfri, fæst ekki nema með ítarlegri rannsóknum í haust og vetur.

Könnun á svæðinu síðast sumar leiddi í ljós minjar sem sýndu að samfelld búseta hefur verið frá svæðinu frá 10. öld. Í ár hefur rannsóknin einkum beinst að svæðinu norðvestan við hinn forna bæjarhól Fjarðar. Meðal annars hefur verið grafið upp bæjarstæði sem varð undir snjóflóði sem féll úr fjallinu Bjólfi árið 1885 og leifar bygginga frá 17. – 19. öld hafa fundist.

Upphaflega stóð til að hætt yrði að grafa í lok ágúst en vegna þeirra miklu minja sem í ljós hafa komið verður grafið að minnsta kosti út september. Á næsta ári verður bæjarhóllinn í Firði grafinn upp.

Ekki hefur áður fundist kuml í Seyðisfirði. „Það eru alltaf stórar fréttir þegar kuml finnst,“ segir Ragnheiður.

Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.