Kveiktu í yfirgefnu húsi eftir að hafa verið að fikta með eld
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. maí 2025 09:48 • Uppfært 05. maí 2025 09:49
Slökkvilið Fjarðabyggðar var kallað út um kvöldmat í gærkvöldi vegna elds í húsi á Reyðarfirði. Eldurinn kviknaði eftir fikt unglinga.
Samkvæmt fyrstu tilkynningu virtist um einbýlishús yst í þorpinu að ræða en fljótlega varð ljóst að eldurinn logaði í eyðibýlinu. Ekki mun vera nýtt að fólk sé þar að fikta með eld sem verði að báli.
Indriði Margeirsson hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar segir að eldurinn hafi verið minniháttar og slökktur með handslökkvitæki. Ungu mennirnir sem voru að leika sér með eldinn meiddust ekki.
Nokkuð af timbri, plasti og öðrum eldsmat var þar sem eldurinn logaði en sem fyrr segir varð hann aldrei mikill. Þá voru áhyggjur af því að eldurinn gæti borist í sinu og skógrækt í nágrenninu en það slapp til.
Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar