Skip to main content

Kynningarfundur um nýjan Axarveg á föstudag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2022 14:30Uppfært 02. feb 2022 14:36

Vegagerðin hefur boðað til kynningarfundar um fyrirhugað útboð á nýjum vegi yfir Öxi á föstudagsmorgun.


Fundurinn hefst klukkan 9:00 og verður sendur út í beinni útsendingu á vef Vegagerðarinnar. Hægt verður að koma með spurningar á meðan honum stendur.

Framkvæmdin verður með nýju sniði í formi samvinnuverkefnis. Það felur í sér að framkvæmdaaðili þarf að huga að fjármögnun, hönnun og framkvæmd auk viðhalds og umsjónar í 30 ár.

Í frétt Vegagerðarinnar kemur framað vegurinn sé 20 km langur með tveimur akreinum með bundnu slitlagi. Hann liggur frá vegamótum Skriðdals- og Breiðdalsvegar að tengingu við Berufjarðarbrú.

Vegurinn fer hæst í um 520 metra hæð, eins og núverandi vegur. Í frumhönnun Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að minnsta kosti einni brú á leiðinni, yfir Berufjarðará, en því er haldið opnu að hagkvæmara reynist að hafa fleiri brýr í stað ræsa og fyllinga á leiðinni.

Heildar efnisþörf jarðefna er áætluð rétt tæplega 1,4 milljónir rúmmetra, en gert er ráð fyrir að stærstur hluti þess efnis komi úr skeringum í vegstæði.